Orlofshús BHM í Brekkuskógi eftir PK Arkitekta
Orlofshús BHM í Brekkuskógi, hönnuð af PK Arkitektum, hlutu Menningarverðlaun DV 2015 í flokki arkitektúrs.
Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Árið 2012 stóð Bandalag háskólamanna fyrir samkeppni um orlofshús í Brekkuskógi þar sem PK Arkitektar urðu hlutskarpastir. Orlofshúsin, eru staðsett í grónu kjarrlendi með magnað útsýni til fjalla og yfir Laugarvatn. Þegar horft er á húsin úr fjarlægð má greina dökk form sem setja sterkan svip á landslagið en taka þó ekki yfirhöndina þar sem þak húsanna er grasi vaxið. Þegar komið er nær má sjá ríka efniskennd sem birtist einkum í dökkri timburklæðningunni sem tónar vel við gróið umhverfið. Hvort sem horft er á rýmisupplifun og formgerð, efniskennd og frágang eða notagildi endurspegla húsin framúrskarandi arkitektúr í alla staði. Verkið i heild sinni er sannarlega innblástur og hvatning til að vanda vel til verka í fallegu íslensku landslagi.“