Netflix, VOD og Tímaflakk – Er línuleg dagskrá búin að vera? – Tengsl sameiginlegs sjónvarpsáhorfs og samkenndar þjóðar
Frá upphafi ljósvakamiðlunar hefur efni verið varpað til almennings eftir línulegri dagskrá. Stjórnendur fjölmiðla hafa ákveðið dagskrána, útvarps- eða sjónvarpstækið tekið við útsendingum miðlanna og notandinn þurft að neyta efnis eftir þeirri forskrift.
Í tæpa öld hefur íslenskt þjóðfélag á margan hátt verið skipulagt eftir dagskrá útvarps og sjónvarps. Ljósvakamiðlarnir hafa sameinað fólk í sameiginlegri upplifun á efni og á kaffistofum hefur verið talað um þætti gærkvöldsins. Viðfangsefni og skoðanir þjóðarinnar hafa mótast út frá því efni sem hefur birst í línulegri dagskrá.
Nú keppist málsmetandi fólk hins vegar við að lýsa endalokum línulegrar dagskrár. Efnisveitur á borð við Netflix, æskimyndakerfi (VOD-leigur) og hliðruð dagskrá býður einstaklingnum upp á að horfa á efni að eigin vali, í eigin tæki, hvenær sem honum hentar. Úrvalið er óendanlegt og fjölbreytnin ótrúleg.
En hvaða áhrif myndi dauði línulegrar dagskrá hafa á samfélagið? Munum við halda áfram að sækja í hina sameiginlegu upplifun í línulegri dagskrá? Mun sameiginlegur reynsluheimur þjóðarinnar minnka og sundurlyndi aukast meðfram frelsinu?
DV veltir fyrir sér upphafi og mögulegum endalokum línulegrar dagskrár, áhrifum þeirra og samfélagslegum afleiðingum.
Til að fræðast um upphaf línulegrar dagskrár leitaði DV til eins helsta fjölmiðlasérfræðings þjóðarinnar, Þorbjörns Broddasonar. Til að skilja hvaða áhrif endalok línulegrar dagskrár í fjölmiðlum gætu haft þurfum við fyrst að skilja hvaða áhrif hún hafði þegar hún kom fyrst fram.
Í gegnum aldirnar hafa kirkjan, sögur og bækur búið til sameiginlegan reynsluheim þjóðarinnar. Dagblöð komu svo fram á öðrum áratug 20. aldarinnar, en dreifingin var stopul og náði ekki til allra landsmanna á sama tíma. Þessir miðlar voru ekki þess eðlis að allir gætu upplifað sömu hlutina og tekið þátt í sömu viðburðunum á sama tíma.
„Fram að dögum Ríkisútvarpsins fór skoðanamótun á Íslandi umfram allt fram í kirkjunum. Fólk sótti guðsþjónustur reglulega og þar hittust menn. Þeir fáu sem fóru ekki fréttu svo hvað hafði verið rætt þar. Meginfjölmiðillinn var guðsorð vegna þess að það var notað til að halda fólki í skefjum og móta vitund samfélagsins,“ segir Þorbjörn.
Á fyrstu áratugum 20. aldarinnar var útvarpið fundið upp og var fyrsta útvarpsstöðin á Íslandi stofnuð 1926. Það einkaframtak gekk ekki upp og Ríkisútvarpið var stofnað fjórum árum síðar.
„Á fjórða áratugnum var útvarpið hægt og sígandi að ná til allrar þjóðarinnar. Strax í upphafi var keyptur alveg feikilega öflugur langlínusendir og settur upp á Vatnsenda. Það leiddi til þess að útvarpið náði um allt land. Nokkurn veginn hvar sem var á landinu gat fólk því keypt sér útvarpstæki og byrjað að hlusta.“
Áhrifin af þessu og smám saman fór þjóðin öll að skipuleggja daglegt amstur sitt að einhverju leyti í kringum útvarpsdagskrána. „Á þessum tíma verður Ríkisútvarpið að alveg feikilega mikilvægum þætti í daglegu lífi fólks. Þarna fáum við bæði almennar fréttir og veðurfréttir, sem voru óskaplega mikilvægar,“ segir hann. „Síðan var það menningarefnið. Menntamenn komu í útvarpið og fluttu erindi sem öll þjóðin hlustaði á. Ríkisútvarpið átti því án efa mjög mikinn þátt í því að móta vitund þjóðarinnar og efla samkennd hennar fram yfir miðja 20. öldina.“
Allir Íslendingar heyrðu sömu raddirnar tala um sömu málefni og má því leiða líkur að því að Ríkisútvarpið hafi gert þjóðina um margt einsleitari en áður og stækkað sameiginlegan reynsluheim einstaklinga á eyjunni.
Framan af öldinni fór fréttamennska fyrst og fremst fram í gegnum flokksbundin dagblöð og því mikilvægt að fá sameiginlegan umræðuvettvang. Fréttastofa Ríkisútvarpsins leyfði sér þó ekki að snerta á pólitískum hitamálum lengi framan af og flokksblöðin voru því enn mikilvæg.
„Morgunblaðið var ríkjandi í íslenskum fjölmiðlaheimi og mótaði pólitíska umræðu löngu eftir að Ríkisútvarpið kom til sögunnar. Skoðanamótun fór því fram á forsendum Morgunblaðsins og allar pólitískar rökræður fóru fram í blöðunum. Stjórnmálamenn sáu til þess að Ríkisútvarpið gat ekkert beitt sér í pólitískri umræðu. Þeir máttu flytja fréttir á meðan það truflaði engan, en að fara að tala um pólitísk álitamál, eða hafa frumkvæði að því að leiða saman menn í ágreiningi, það gekk ekki.“
Eftir seinni heimsstyrjöld fór sjónvarpseign og notkun að verða nokkuð útbreidd á Vesturlöndum. Árið 1955 fór fjölmiðill bandaríska herliðsins í Keflavík að senda út sjónvarpsútsendingar sem náðist í nágrenni við svæðið. 1966 var síðan stofnuð fyrsta íslenska sjónvarpsstöðin, Ríkissjónvarpið.
Þorbjörn segir áhrifin af sjónvarpinu hafa verið margvísleg. Til dæmis hafi allt efni í útvarpinu verið á íslensku en þar sem framleiðslan á sjónvarpsefni var dýrari var mikið erlent efni á boðstólum. Þar með skall flóðbylgja erlendra menningaráhrifa á þjóðinni í einu vetfangi.
Hann segir óvænta hliðarafleiðingu af þessu hafa verið aukin enskukunnátta og aukið læsi. Vegna peningaleysis gat útvarpið ekki raddað efni, en í staðinn var það textað. „Þetta var neyðarlausn en sem leiddi til þess að sjónvarpið ýtti undir læsi. Börn voru að lesa tugi blaðsíðna á kvöldi þótt þau læsu ekki bók. Jafnframt efldi þetta enskukunnáttu,“ segir Þorbjörn.
„Það er svolítið merkileg kenning sem að fjölmiðlafræðingurinn Marshall McLuhan setti fram fyrir um 50 árum. Hann hélt því fram að útvarpið staðlaði og sameinaði – það sæi til dæmis til þess að fólk hætti að tala í mállýskum – aftur á móti sagði hann að sjónvarpið dreifði – það dreifði huganum og í skjóli sjónvarpsins þrifust mállýskur. Honum tókst reyndar aldrei að sanna þetta, enda fannst honum skemmtilegra að slá fram kenningum en að eltast við að staðfesta þær. En ég held að útvarpið hafi lagt sitt af mörkum til að viðhalda sæmilegum orðaforða í tungunni og auðgi íslenskrar tungu sæki mjög mikið til ljósvakamiðlanna. Vegna þess hvað sjónvarpið er fjölbreytilegt, og hversu hátt hlutfall á Íslandi er af erlendu efni, þá held ég að sjónvarpið hafi ekki haft sömu áhrif.“
Alveg fram á síðustu ár var sjónvarpið að vissu leyti sameinandi afl og ég held að það sé alveg óhætt að segja að það sé það enn í dag.
Til að byrja með sýndi RÚV þrjá daga í viku, en stuttu síðar var það orðið sex daga vikunnar. Sá siður að halda fimmtudögum (og júlí) sjónvarpslausum hélst svo allt til 1987. Þessar staðreyndir höfðu mikil áhrif á það hvernig hversdagslegt líf fólks var skipulagt: „Einu dagarnir sem var nokkur lifandi leið að draga fólk á fund var á fimmtudögum. Allt félagslíf safnaðist á fimmtudaga. Svo drógu menn aðeins andann í júlí,“ segir Þorbjörn.
„Sjónvarpið verður til að sameina fólk því það er bara ein rás og þetta er náttúrlega nýnæmi og óskaplega spennandi,“ segir Þorbjörn.
„Hesturinn þótti góður fararskjóti þangað til bíllinn var búinn til. Á sama hátt mun öld sjónvarpsstöðvanna líklega bara endast fram til 2030,“ sagði Reed Hastings, framkvæmdastjóri efnisveitunnar Netflix, fyrir um ári síðan.
Það er ljóst að sjónvarpsstöðvar með hefðbundna línulega dagskrá eiga undir högg að sækja. Samkvæmt mælingum Capacent á sjónvarpsáhorfi Íslendinga dróst áhorf á línulega dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva til að mynda saman um 36 prósent frá 2008 til 2014 – en í aldurshópnum 12 til 49 ára minnkaði áhorfið enn meira, eða um 46 prósent.
Gera má ráð fyrir að áhorfið hafi minnkað enn meira, en síðan þá hefur efnisveitan Netflix til dæmis opnað fyrir þjónustu sína á landinu.
Í stað þess að fylgja línulegri dagskrá horfir fólk í auknum mæli á sjónvarpsefni í gegnum net-efnisveitur á borð við Netflix, Hulu eða Amazon, sem það tengir við sjónvarpstækið; í gegnum æskimyndakerfi (en svo hefur Video On Demand-tæknin verið nefnd á íslensku); og í gegnum tæki sem bjóða upp á hliðrað áhorf, svo sem Tímaflakk Símans og Sarpinn á RÚV.
„Alveg fram á síðustu ár var sjónvarpið að vissu leyti sameinandi afl og ég held að það sé alveg óhætt að segja að það sé það enn í dag. Áhorf á alla skapaða hluti er vissulega að minnka, því það er svo mikið í boði. Það breytir því þó ekki að vissir þættir í sjónvarpi – kannski umfram allt fréttirnar – ná til nógu stórs hluta þjóðarinnar til að þeir síist inn í samvitundina. Jafnvel þótt ég hafi ekki horft á fréttirnar sjálfur í gærkvöldi þá hefur þú kannski gert það og þar með skapast umræðugrundvöllur. Ég fæ fréttirnar í gegnum þig. Þótt það dragi úr áhorfi og verður töluverð sundrun þá eru þessar stóru stöðvar áfram sameinandi afl. En þær eru samt ljósár frá því sem var þegar það var bara ein stöð og miklu minna um aðra hluti sem dreifðu huganum.“
Árið 1986 lauk einokun á markaði sjónvarps og útvarps með stofnun Stöðvar 2. Þar með lauk þeim 20 ára kafla í sögu þjóðarinnar þar sem allir horfðu á sömu dagskrána og mótuðust af sömu sjónvarpsþáttunum frá degi til dags.
„Með tilkomu stöðvar 2 missir þjóðin þetta sameiningarafl sitt. Jafnframt eykst enn og margfaldast erlenda efnið því Stöð 2 hafði náttúrlega enn síður en Ríkissjónvarpið efni á því að framleiða íslenskt efni. Jafnvel þó að þeir séu á seinni árum með mjög virðingarverðar tilraunir til þess og vissulega heilmikið að gerast.“
Möguleikinn til að njóta fjölmiðla utan hinnar línulegu útvarps- og sjónvarpsdagskrár hefur verið til frá því að segulbandið og VHS-spólan komu fram. En það var fyrst með internetinu sem það varð að raunhæfum valkosti. Niðurhal og streymi komu fram og var síðan svarað af sjónvarpsstöðvum með æskimyndakerfum (e. VOD) og tækni til hliðraðs áhorfs.
Þorbjörn segist telja óhjákvæmilegt að fjölmiðla- og sjónvarpsneysla muni breytast í grundvallaratriðum með þessari tækni. Þótt það verði eflaust áfram einhver línuleg dagskrá verði fjölmiðlafyrirtækið frekar að aðila sem útvegar efni og notandinn getur svo raðað því upp og notið þess þegar honum dettur í hug hverju sinni. Þannig verður sjónvarpsstöð að einhverju leyti eins og dagblað sem hægt er að taka upp hvenær sem er, leggja frá sér og taka upp aftur seinna.
Þú getur ekki lengur treyst því að allir hafi séð sama sjónvarpsefnið, en það hversu auðvelt er orðið að afla upplýsinganna bætir upp fyrir það.
En ef útvarpið og sjónvarpið hafa spilað svo stórt hlutverk í mótun sameiginlegs reynsluheims þjóðarinnar, hvaða áhrif mun endalok slíkrar neyslustýringar hafa á samfélagið? Munu sameiginleg gildi hverfa og samkennd minnka?
„Ég held að samkenndin muni ekki rýrna mikið meira en orðið er – en hún hefur vissulega rýrnað. Þú getur ekki lengur treyst því að allir hafi séð sama sjónvarpsefnið, en það hversu auðvelt er orðið að afla upplýsinganna bætir upp fyrir það. Ef maður hefur misst af einhverju og það berst í tal á kaffistofunni getur maður leitað að því í snjallsímanum. Samkenndin skilar sér með öðrum hætti. Kenningin er því að aðgengileikinn bæti fyrir þessa hliðrun, að við horfum á sömu fréttir en ekki á sama tíma eða stað,“ segir Þorbjörn.
„Maður lendir auðvitað í því að það sé einhver hávaðadeila eða stórkostlegir hlutir að gerast í hóp á Facebook eða vefsíðu sem maður veit ekki af, nennir ekki eða hefur ekki tíma til að fylgjast með. Þetta verður fjölbreytilegra, en mér sýnist að þessi rosalega öfluga tækni setji undir þennan leka sem að ég hélt að ég sæi fyrir og óttaðist, að samvitundin glataðist.“
Þorbjörn segir þó líklegt að ýmsir stórviðburðir, athafnir og kappleikir í beinni útsendingu muni áfram sameina samfélagið í sameiginlegri upplifun, bæði hér og erlendis. Þetta er það sem félagsfræðingarnir Daniel Dayan og Elihu Katz hafa kallað „fjölmiðlahátíðir“ og sagt virka eins og helgiathafnir nútímasamfélaga.
Þá segir Þorbjörn einnig líklegt að einstaka menningarviðburðir muni áfram geta sameinað ólíka hópa samfélagsins. Hann nefnir til að mynda sjónvarpsþáttaröðina Ófærð sem stór hluti íslensku þjóðarinnar fylgist með. Samkvæmt mælingum sá helmingur íbúa landsins fyrsta þáttinn, eða um 90 prósent af þeim sem horfðu á sjónvarp á þeim tíma.
Sigurjón Kjartansson, sjónvarpsmaður og handritshöfundur Ófærðar, tekur í svipaðan streng.
„Línuleg dagskrá blífur svo fremi sé boðið upp á atburði í sjónvarpi, bæði íþróttakappleiki í beinni útsendingu, Eurovision-úrslit þar sem fólk getur kosið og annað slíkt,“ segir hann.
„En það sem öll þessi digital-væðing hefur gert að verkum er að frumsýningin verður miklu verðmætari og dýrmætari. Við sjáum það mjög skýrt með Ófærð að allir vilja vera með í frumsýningunni. Það er ekki það sama að streyma þætti seinna og að horfa á sama tíma og allir aðrir,“ segir Sigurjón og bendir á að í internettengdum samtímanum séum við í raun ekki að horfa á þáttinn ein heldur með allri þjóðinni.
[[06D92371AC]]
„Það er ánægjulegt hvernig samfélagsmiðlar styðja við línulegu dagskrána. Twitter er einhver besti vinur línulegrar dagskrár sem hugsast getur. Þú vilt vera með, fyrir framan sjónvarpið að horfa á beina útsendingu, frumsýningu á lokaþætti eða eitthvað, og vera með í samkeppninni um hver er fyndnastur eða skemmtilegastur. Þetta er bara gamla, góða fjölskyldan sem safnast saman. Maður er manns gaman og það mun ekkert breytast,“ segir Sigurjón.
„Það er mjög gaman að sjá hvernig fólk er að fylkja sér saman um reynsluna. Ég held reyndar að glæpaþættir séu sérstaklega góðir varðandi þetta, því það eru allir saman að reyna að leysa úr gátu. Þannig að það er ekki alveg það sama að horfa á lokaþátt af gamanþætti.“
Sigurjón bendir einnig á að línulega dagskráin gæti haldi velli, einfaldlega vegna þess að efnið er orðið svo mikið og fjölbreytt, og notendur þurfa einhvern til að segja sér hvað gæti verið gott að horfa á. „Við munum áfram vilja hafa dagskrá, að láta mata okkur við og við, láta koma okkur á óvart.“
Þorbjörn segir eitt það athyglisverðasta við fjölmiðlun nútímans sé að miðlar og boðskiptaleiðir hverfi ekki þegar nýir eru þróaðir, heldur fái þeir einfaldlega ný hlutverk. Bóklestur lagðist þannig ekki af með útvarpinu og útvarpið fékk einfaldlega nýtt hlutverk með sjónvarpinu. Jafnvel skeytasendingar hafi snúið aftur sem SMS-skilaboð og faxið komið aftur sem tölvupóstur. Rafbókin hefur ekki eytt prentuðu bókinni og efnisveitur munu líklega ekki gera út af við línulega dagskrá.