David Walliams er hinn prýðilegasti sjónvarpsmaður, ágætur leikari og enn betri barnabókahöfundur. Bækur hans seljast eins og heitar lummur víðs vegar um heim og heilla börnin, einnig hér á landi. RÚV sýndi á dögunum sjónvarpsmynd sem byggð er á einni bóka hans, Billionaire Boy, Milljarðastrákurinn.
Fátækur faðir sem vann í verksmiðju sem framleiddi klósettpappír hafði ekki efni á að halda jól fyrir sig og son sinn og grét vegna þess. Svo fékk hann hugmynd um framleiðslu á nýrri tegund af klósettpappír, svonefndum Bossahressi, og varð fyrir vikið svo ríkur að hann vissi ekki aura sinna tal. Allt gat hann keypt fyrir sig og son sinn. Faðirinn gerðist firrtur í allri sinni gróðafíkn meðan sonurinn varð einmana og þráði sanna vini og innihaldsríkt líf. Í lokin fór svo að faðirinn varð gjaldþrota, sem betur fer segir maður nú bara því fyrir vikið áttaði hann sig og fann hamingjuna.
Þetta var skemmtileg mynd og vel leikin. Persónugalleríið bauð upp á líflega túlkun fyrir leikarana. Walliams brá þar fyrir í hlutverki skólakokks, konu, sem eldaði einungis viðbjóðslegan mat. Leikarinn virtist skemmta sér afar vel í kvenhlutverki. Hin skemmtilega Catherine Tate var fyndin í hlutverki Sapphire Diamond, kærustu föðurins, sem var greinilega einungis á eftir peningunum hans. Söngvaranum góða, Bryn Terfel, brá svo fyrir í einu atriði þar sem hann söng Puccini-aríu og gerði það vitanlega lystilega vel.
Fullorðna fólkið í myndinni var ekki alltaf geðfellt. Faðirinn missti allt jarðsamband eftir að hafa eignast peninga og tapaði þeirri hlýju sem einkenndi hann í upphafi myndar. Kennslukonan í myndinni átti til að sýna nemendum kulda og jafnvel grimmd. Gráðuga kærastan var svo verulega andstyggileg. Það var meira spunnið í börnin, fannst manni, fyrir utan systkinin ógurlegu sem níddust á óhörðnuðum skólakrökkum.
Þetta var mynd sem var við hæfi að sýna um jól. Í henni var að finna fallegan boðskap um mikilvægi kærleika og vináttu í mannlegum samskiptum. Margir láta sig dreyma um að eignast auðæfi en þegar við sjáum mynd eins og þessa áttum við okkur á því að einfalt líf í sátt við aðra er sennilega það eftirsóknarverðasta af öllu.