Fjórða þáttaröðin um Sherlock Holmes með Benedict Cumberbatch í aðalhlutverki verður sýnd á BBC um áramótin. Nýja þáttaröðin er sögð vera myrk og tíðindamikil og fremur sorgleg. Aðstandendur þáttanna segja hana vera þá bestu fram að þessu.
Cumberbatch hefur hlotið mikið lof fyrir túlkun sína á hinum sérlundaða og snjalla leynilögreglumanni. Leikarinn segist ekki vera frá því að það hafi sett mark á persónuleika sinn að túlka karakterinn svo lengi og segir að móðir hans telji hann hafa orðið uppstökkari og óþolinmóðari við sig eftir að hann hóf leik í þáttunum. Móðirin hafði í upphafi ekki mikla trú á að sonurinn yrði sannfærandi Holmes þar sem hann væri ekki nógu myndarlegur. Þar hafði hún ekki á réttu að standa en leikarinn er orðinn kyntákn. Hann botnar ekkert í því sjálfur því hann hefur aldrei litið á sig sem sérstakt augnayndi.
Cumberbatch hefur margsinnis verið tilnefndur til verðlauna fyrir sviðs- og kvikmyndaleik og vann til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í Sherlock. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í The Imitation Game. Árið 2014 komst hann á lista Time yfir 100 áhrifamesta fólk veraldar. Elísabet Englandsdrottning sæmdi hann heiðursorðu árið 2015.
Leikarinn er kvæntur leikstjóranum Sophie Hunter en þau höfðu verið vinir í sautján ár áður en þau gengu í hjónaband. Þau eiga einn son og von er á öðru barni innan skamms.