Þegar maður er á hótelherbergi í útlöndum kveikir maður á sjónvarpinu til að sjá hvaða rásir er þar að finna. Þetta gerði ég á dögunum í Salzburg, þeirri fallegu borg sem um þetta leyti árs breytist í dýrðarinnar jólaland. Í sjónvarpinu voru alls kyns rásir en nær undantekningarlaust var þar töluð þýska, líka í erlendum þáttum og Hollywood-kvikmyndum. Þarna heyrði ég Angelu Lansbury tala reiprennandi þýsku í þáttunum um Jessicu Fletcher og það sama gerði Leonard Nimoy í Star Trek-þætti.
Við þekkjum raddir þeirra sem við umgöngumst. Við þekkjum einnig raddir leikara og í þeirri stétt kann fólk sannarlega að nota röddina. Það á ekki að breyta þannig röddum heldur leyfa þeim að njóta sín. Á hótelherberginu í Salzburg starði ég forviða á frú Lansbury, vinkonu mína til margra ára, tala þýsku með rödd sem var ekki hennar eigin. Mér var misboðið og stillti á aðra rás þar sem við mér blasti herra Nimoy sem einnig talaði þýsku en ekki heldur með eigin rödd. Þetta fannst mér ekki gott! Ég ákvað að hætta að skipta milli stöðva því ekki vildi ég rekast á Anthony Hopkins, sem hefur dásamlega rödd, tala þýsku með hversdagslegri röddu.
Vonandi tökum við Íslendingar ekki upp þann ósið að talsetja erlendar kvikmyndir og þætti. Raddir eru hluti af manneskjunni og það á ekki að svipta hana rödd sinni og gefa henni aðra.