fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024

Hvenær stelur maður hönnun?

Tíðarandi, myndabankar, stælingar og stolin hönnun

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 23. desember 2016 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú á dögunum var bent á að kápa bókarinnar Elsku Drauma mín, sem er hönnuð af Jóni Ásgeiri Hreinssyni, líkist ískyggilega mikið öðru hönnunarverki, plakati sem Concepcion Studios hannaði fyrir bandarísku hljómsveitina Lady Danville árið 2012. Bent var á líkindin í úttekt Fréttablaðsins á bestu og verstu bókarkápum ársins og hefur málið vakið nokkuð umtal í hönnunar- og bókaheiminum.

Hönnunarsérfræðingar virðast sammála um að málið sé einstaklega óheppilegt fyrir hönnuðinn og forlagið og nokkuð augljóst sé að um stælingu sé að ræða. Það er þó ekki alltaf auðvelt að meta hvenær hönnun er stolin og hvenær tíðarandinn blæs svipuðum hugmyndum í brjóst ólíkra hönnuða.

Blaðamaður DV fór að velta fyrir sér bókarkápum og stolinni hönnun og ræddi við tvo sérfræðinga um efnið.

Tíðarandi og trend

Það er ljóst að mörkin milli réttmætrar notkunar, innblásturs eða stuldar eru oft óskýr – og kannski sérstaklega í hönnunarheiminum. Tíðarandi, „trend“ og tíska er mjög sterk í hönnun, þar sem áherslan er oft á að laða fólk að vöru frekar en einstakan stíl eða frumleika. Verkkaupar vilja þannig oft höfða til hins kunnuglega en einnig geta ákveðnir fagurfræðilegir eiginleikar; litir, form, letur, „effektar“, eða áferð, verið áberandi á tilteknum tíma og margir gripið til þeirra. Þetta sást til dæmis greinilega í jólabókaflóðinu í fyrra þegar skuggamyndir af andlitum, með einlitan bakgrunn utan við útlínur andlitsins sem er svo fyllt með annarri mynd (helst af íslenskri náttúru), voru óvenjulega áberandi.

Sjá: Skuggamyndir í hönnun

Annað fyrirbæri sem hefur skotið upp kollinum í umræðunni er notkun mynda úr myndabönkum, svokallaðra „stock photos,“ í hönnun. Þá kaupir hönnuður eða fyrirtæki leyfi til að nota mynd úr bankanum, verðið er mismunandi eftir því í hvað myndin verður notuð og hversu oft. Þá er hægt að borga hærra verð og tryggja að engir fleiri fái að nota sömu mynd. Mismunandi er hvort krafa sé gerð um að vísað sé til þess hvaðan myndin kemur.

Oft eru slíkar myndir notaðar í myndskreytingar á bókarkápu, og þarf þá ekki að leita lengra en í næstmest seldu bók jólavertíðarinnar. Framan á kápu Ragnars Helga Ólafssonar fyrir Petsamo eftir Arnald Indriðason er mynd af stúlku sem horfir yfir hafnarsvæði. Þar hefur mynd úr myndabanka verið komið inn í nýtt samhengi í samsettri myndskreytingu þar sem fjórar myndir eru feldar saman í eina. Á titilsíðu og kápuflipa, í beinu framhaldi af nafni hönnuðarins, kemur enn fremur fram að myndin af stúlkunni er eftir tiltekinn ljósmyndara og sé fengin í gegnum tiltekinn banka.

Teiknaða myndin framan á bókarkápu Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl frá 2009, sem er hönnuð af Jóni Ásgeiri Hreinssyni, er dæmi um mynd sem er nánast tekin beint úr myndabanka en titli og nafni rithöfundar er bætt við. Á titilsíðu þeirrar bókar er aðeins tekið fram hver hönnuður bókarkápunnar er, en ekki hver teiknaði myndina eða hvaðan hún er fengin.

Þegar margir notast við sömu mynd eða vísa í sama verk geta mörg hönnunarverk orðið mjög áþekk. Þannig hefur sitjandi beinagrindin framan á Rökkurbýsnir eftir Sjón frá árinu 2008 einnig birst á bókarkápum kennslubóka um líffærafræði, en teikningin er eftir hollenska málarinn Andreas Vesalius frá 16. öld og hefur verið notuð víða síðan þá.

Ekki ómögulegt að sjá hvort hönnun sé stolin

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, segir stolna hönnun almennt ekki vera mikið vandamál meðal fagfólks á Íslandi.

„Yfirleitt eru það leikmenn sem stæla það sem fagfólk er að gera,“ segir Halla.

„Það getur verið fín lína milli þess hvað telst kóperað og hvað ekki. Í tíðarandanum geta hönnuðir gert svipaða hluti sem óþjálfað auga sér sem „kóperingu.“ Þeir sem eru óvanir að skoða hönnun vanmenta oft tíðarandann og sjá líkindi með hlutum sem eru mjög ólíkir. Það eru alltaf ákveðin trend í letri, myndanotkun, og þegar fólk er að fjalla um svipað efni er ekkert óhugsandi að tveimur einstaklingum detti eitthvað tiltölulega svipað í hug. Hvaðan innblásturinn kemur getur líka verið blekkjandi. Hönnuður sér hlut og gerir seinna eitthvað svipað, án þess að gera sér grein fyrir að því hvaðan innblásturinn kom – gerir sér ekki grein fyrir að hann sé að kópera,“ segir hún.

„Það er samt alls ekki ómögulegt að sjá hvort um kóperingu sé að ræða í hönnun, en það krefst ákveðinnar þekkingar og fagmennsku,“ segir Halla og segir það sé helst þegar margir þættir hönnunarverks; hugmynd, mynduppbygging og handverkið er allt mjög svipað sem hægt sé að slá því á fast að um stælingu sé að ræða.

Hún nefnir til dæmis dæmi af svokölluðum skegghúfum frá Vík Prjónsdóttir sem var stolið af fyrirtækinu fyrir nokkrum árum. „Það gæti auðvitað mörgum dottið í hug að gera einhvers konar skegghúfu, en þegar útfærslan á hugmyndinni er nákvæmlega sú sama verður það augljóst. Í því tilfelli þarf maður ekki að vera nema sæmileg handverksmanneskja til að skilja að hún er stolin – allir saumar, allt prjónið og allur frágangur er eins.“

Halla segir helsta vandamálið vera skortur á úrræðum fyrir þá sem telja að á sér hafi verið brotið.

„Það er yfirleitt brotið á litlum aðilum sem eiga erfitt með að sækja rétt sinn. Þá eru til lítil dómafordæmi og útlínur laganna því ekki skýrar. Þeir einu sem geta náð að verja sig eru stóru aðilarnir, Disney eða Sony, og þá fær höfundarétturinn svolítið neikvæðan stimpil.“

Þess má geta að hönnuðir Concepcion Studios segjast ekki ætla að grípa til aðgerða vegna bókarkápu Elsku drauma mín meðal annars vegna þess að hljómsveitin sem plakatið var gert fyrir er hætt störfum.

Önnur lögmál í hönnun en list

DV spjallaði einnig við Ragnar Helga Ólafsson, skáld, myndlistarmann og hönnuð. Hann lagði sérstaka áherslu á eðlismun og mismunandi lögmál sem giltu í hönnun og hefðbundinni listsköpun, bókarkápa væri ekki endilega sjálfstætt „listaverk“ sem ætti að meta sem slíkt.

„Hönnun tengist skýrar dæguranda og tísku en hrein listsköpun og grunnhvati hönnunar, eða ástæða þess að verkið er unnið, er ennfremur utan þess sem hannar. Hún er hjá verkkaupanum,“ segir Ragnar Helgi. Hann segir þetta vera eitt þeirra lykilatriða sem skilji að hönnun og list: „Hönnuðurinn sinnir þjónustustarfi og hefur ekki endilega lokaorðið um hvort og hvernig verkið lítur út á endanum.“

„Það er rétt að geta þess að það er ekki fyrr en á síðustu 10 til 15 árum sem það verður almenn regla að geta kápuhönnuðar á kreditsíðu eða kápuflipa. Áður fyrr (og reyndar er svo víða um lönd enn) var litið á kápuna sem markaðstæki og þess sérstaklega getið í samningum höfundar og útgefanda að höfundur hefði ekkert að segja um kápuna,“ segir hann.

„Vel má velta því fyrir sér hvort þessi upplyfting hönnunarinnar sé æskileg þróun. Að sumu leyti grunar mig að þetta tengist upphafningu sjálfsins almennt í samtímanum og þeim ofvexti sem hlaupinn er hugmyndina um mikilvægi sjálfstjáningar og einstaklingshyggju almennt.“

Ragnar Helgi segir að árlegar samantektir fjölmiðla á fallegustu og ljótustu bókarkápunum séu einnig til marks um misskilning á eðli kápuhönnunar enda sé það, að hans mati, ekki endilega hlutverk bókarkápu að vera falleg heldur „að staðsetja bókina rétt í huga þess sem á heldur og miðla innihaldi hennar á heiðarlegan hátt.“

Án þess að það afsaki að nokkru leyti afritanir eða grófar stælingar bendir hann á að kápuhönnuðir séu stöðugt undir meiri tímapressu og kröfu um afköst, en að sama skapi hafi krónutala launa þeirra lítið hækkað frá hruni. „Kápuhönnuðir verða því að vinna hratt og gera margar kápur á mjög skömmum tíma á haustdögum. Það á við um hönnuði hvort sem þeir starfa inná forlögunum eða sjálfstætt. Þeir þurfa að gera riss sem bæði falla að geði höfundanna og markaðsdeildar bókaútgáfunnar. Slík pressa eykur mögulega líkurnar á því að fólk freistist til að stytta sér leið.“

Hann leggur þó áherslu á að hrein afritun sé engu að síður hvorki til eftirbreytni né lögleg – og reyndar ekki sérlega algeng heldur. Hann segir hins vegar stundum erfitt að greina mörkin milli hönnunar sem sé innblásin af öðru verki og hönnunar sem sé hrein afritun annars verks – þótt stundum sé að vísu líka augljóst dagljóst hvort er. Sjálfur hafi hann séð ýmis stig afritunar á eigin hönnunarverkum í gegnum tíðina, allt frá vægum vísunum til einhverskonar eftirlíkinga – og sjálfur líka auðvitað orðið fyrir áhrifum frá verkum annarra. „Afritun verka er auðvitað ekki sama og það að sækja sér innblástur eða „vera undir áhrifum“ frá verkum annars hönnuðar eða listamanns. En þó er rétt að geta þess að hugmyndin um „höfundarverk“ og „hugverkarétt“ hefur jafnan verið skilgreind mun þrengra þegar það kemur að hönnun og auglýsingagerð en listsköpun. Og reyndar hefur mér fundist almennt að höfundarréttur sé stundum of stíft skilgreindur sem hrár eignarréttur í vestrænni hugsun, jafnvel svo að það komi niður á þeim dansi sem listsköpun er, því list er getin af list eins og allir vita auðvitað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allt að verða klárt fyrir fyrstu kaup Amorim til United – 17 ára ungstirni

Allt að verða klárt fyrir fyrstu kaup Amorim til United – 17 ára ungstirni
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
EyjanFastir pennar
Fyrir 7 klukkutímum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot