Price og Blomsterberg elduðu lambaskanka
Ég segi ekki að það sé ómissandi þáttur jólahaldsins að horfa á matreiðsluþætti en það er samt gaman. RÚV sýndi á dögunum danska matreiðsluþáttinn Jól með Price og Blomsterberg. Þar voru á matseðli hægeldaðir lambaskankar, einn af mínum uppáhaldsréttum. Mikið var lagt í þá matseld og allt leit það ljómandi vel út svona til að byrja með. En allt í einu var farið að stafla grænmeti undir skankana og síðan var grænum kryddjurtum og grænu grænmeti blandað saman við kartöflumúsina sem varð fyrir vikið græn. Þetta fannst mér bæði tilgerðarlegt og ónauðsynlegt. Rétturinn var alls ekki eins og dásamlegu lambaskankarnir á veitingastað IKEA, þar er skanki, kartöflumús (ekki græn heldur eðlileg) og brún sósa – semsagt fullkomin máltíð. Svo kannski smávegis af grænum baunum – en ekki mikið.
Ég hef vissar efasemdir um allt þetta græna tilstand í þessum danska þætti. Það er reyndar mín skoðun að fólk sem hámar í sig grænmeti öllum stundum geri það vegna þess að það er hrætt við að deyja. Það telur sér trú um að grænmeti lengi líf þess til muna. Það má svosem halda það ef það vill. En aldrei hef ég horft löngunaraugum á spínat eða grænkál. Ég fagna hins vegar innilega hverjum elduðum lambaskanka.