Ekki situr maður beinlínis límdur við skjáinn þegar íþróttafréttir eru sagðar í sjónvarpi. Reyndar er það umfjöllunarefni út af fyrir sig hversu mikið pláss íþróttafréttir fá í sjónvarpi. Þar eru íþróttaunnendur þjónustaðir eins og séu þeir forréttindastétt. Á aðventu nennir maður hins vegar ekki að nöldra of mikið yfir þessu. Maður hefur annað við tímann að gera.
Hjartnæm frásögn var í íþróttapakka RÚV á dögunum, tvö kvöld í röð. Í fyrri fréttinni var sýnd mynd frá Afganistan af hinum sex ára gamla Ahmadi sparka bolta í sveitaþorpi, íklæddum íþróttabúningi gerðum úr plastpoka í lit argentínska landsliðsins. Nafn Lionel Messi var tússað á búninginn. Kvöldið eftir sáum við mynd af Ahmadi litla þar sem Messi leiddi hann inn á íþróttavöllinn í leik Barcelona og Sádi-Arabíu í Katar. Litli guttinn fékk það hlutverk að stilla boltanum upp á miðjum leikvelli og ljómaði af stolti. Eftir það var honum bent á að yfirgefa völlinn en hlýddi ekki og hljóp beint til Messi og tók í hönd hans. Hann vissi greinilega hvar hann vildi vera. Loks brá dómari leiksins á það ráð að taka Ahmadi á öxl sína og bera hann af velli um leið og hann kyssti á hönd litla drengsins.
Ekki man ég hvernig leikurinn fór en það var alveg ljóst hver var maður leiksins. Það var vinur okkar Ahmadi sem bræddi hjörtu okkar allra með einlægri hrifningu og aðdáun á íþróttahetjunni Messi.
Svona geta íþróttafréttir stundum heillað mann, þótt maður hafi venjulega engan áhuga á þeim.