Samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum tók saman listann
WIFT konur á Íslandi, sem eru samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum, hafa valið bestu kvendrifnu sjónvarpsþáttaraðirnar árið 2016. Þættirnir, ásamt stiklum úr þeim, eru taldir upp á vefsíðu WIFT á íslandi.
Eins og mörgum er kunnugt er oft ekki um auðugan garð að grisja þegar kemur að sjónvarpsefni eða kvikmyndum með sterkar kvenpersónur í aðalhlutverki en þessi listi ætti að geta hjálpað þeim sem leita að slíku efni að fá hugmyndir að þáttum til að horfa á.
Norsku þættirnir Skam eru í efsta sæti listans. Skam er norskt unglingadrama sem hefur farið sigurför um heiminn. Rúv hefur lokið sýningum á fyrstu þáttaröðinni en hún er enn aðgengileg á vef RÚV. Þriðja þáttaröðin var sýnd í Noregi á árinu en WIFT konur segja að hún hafi samkvæmt heimildum sínum verið „ROSALEG“.“
The Crown eru í öðru sæti en þættirnir fjalla um fyrstu árin í valdatíð Elísabetar II Englandsdrottningar. Þættina er hægt að nálgast á Netflix og eru samkvæmt WIFT ein dýrasta þáttaröð allra tíma.
Réttur 3 kemur þar á eftir. Þættirnir eru Íslenskir framleiddir fyrir Stöð 2 en aðgengilegir á Netflix víða erlendis. Meðal annars í Bandaríkjunum. Þess má geta að Réttur 3 eða Case eins og þættirnir kallast á ensku voru í vikunni valdir besta erlenda þáttaröðin á vefsíðunni EuroDrama
Næstir eru nefndir til sögunnar þættirnir The Valley sem hafa verið sýndir á RÚV. Þættirnir eru að mati WIFT kvenna „Æsispennandi glæpaþáttaröð, full af breiskum og áhugaverðum kvenpersónum sem gerist í bæ á Englandi sem hefur farið hvað verst út úr eiturlyfjafaraldrinum þar í landi.“
Fleiri þættir sem WIFT konur nefna eru m.a. glæpaþáttaröðin The Fall með Gillian Andersson í aðalhlutverki. Andersson er íslenskum sjónvarpsþáttaáhorfendum að góðu kunn sem lögreglukonan Scully í þáttunum X-files. Raised by Wolf fjalla um einstæða og óhefðbundna móður. Stranger Things þarf varla að kynna fyrir Íslendingum en þættirnir eru fáanlegir á Netflix hér á landi og hafa slegið í gegn. Jessica Jones er ofurhetjuþáttaröð byggð á samnefndri myndasögu, Íslendingar geta fundið þættina á Netflix.
Á vefsíðu WIFT má lesa um alla þættina sem voru tilnefndir og sjá sýnishorn úr þeim.