Magnus Carlsen fagnaði heimsmeistaratitlinum í skák þegar hann vann frækinn sigur á Sergei Karjakin í bráðabana. Einvígi þeirra tveggja var spennandi en svo fór að Norðmaðurinn bar sigur úr býtum. Carlsen, sem er aðeins 26 ára, fær í sinn hlut hátt í hundrað milljónir króna í verðlaunafé.
Svo skemmtilega vill til að heimildamynd um þennan skáksnilling verður frumsýnd hér á landi um helgina. Myndin, sem heitir Magnus, segir frá lífi kappans frá því að hann varð 13 ára og þar til hann varð heimsmeistari árið 2013 eftir sigur á Indverjanum Anand. Ísland kemur aðeins við sögu í myndinni, en Magnus tefldi við stórmeistarann Gary Kasparov hér á landi, en þá var Magnus aðeins 13 ára.