Vonarstræti vann sömu verðlaun fyrir tveimur árum
Kvikmyndin Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson vann aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga á kvikmyndahátíðinni í Lübeck í gærkvöldi. Árið 2014 hlaut myndin Vonarstræti sömu verðlaun. Verðlaunaféð er 12.500 evrur eða um ein og hálf milljón íslenskra króna.
Ífrétt Klapptrés um málið segir „Farið er fögrum orðum um myndina í umsögn dómnefndar þar sem segir að á eigin máta takist kvikmyndagerðarmanninum að hrífa áhorfendur með sér á hjara veraldar þar sem umróti unglingsáranna eru gerð skil tilgerðarlaust en á hrifnæman máta.“
Kvikmyndahátíðin í Lübeck er eina kvikmyndahátíðin í Evrópu sem einblínir sérstaklega á norrænar kvikmyndir ásamt kvikmyndum frá Eystrasaltlöndunum og norðurhluta Þýskalands.