Umtalaðasti þáttur ársins snýr aftur
Einir umtöluðustu sjónvarpsþættir ársins 2016 voru án efa Netflix-serían Stranger Things. Þættirnir hlutu einróma lof gagnrýnenda og eru í hópi bestu sjónvarpsþátta sögunnar samkvæmt IMDb.com með einkunnina 9,0.
Nokkrar vikur eru síðan framleiðendur þáttanna tilkynntu að önnur sería yrði gerð af þessum vinsælu þáttum. Kvisast hefur í Hollywood að þættirnir fari í loftið á sama árstíma og fyrri þáttaröðin sem þýðir að þættirnir verða sýndir um miðjan júlímánuð árið 2017.
Fyrri þáttaröðin segir frá ungum dreng í litlum smábæ sem hverfur sporlaust inn í aðra vídd okkar heims og leit móður hans, vina og annarra í bænum að sannleikanum um hvarf hans. Þættirnir höfðu á sér dulúðlegan og yfirnáttúrulegan blæ sem virtist falla vel í kramið hjá áhorfendum. Fjölmargar vísanir eru í verk eftir til dæmis Steven Spielberg og Stephen King í þáttunum.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða stefnu þættirnir munu taka í annarri þáttaröðinni. Það er þó nokkuð ljóst að aðdáendur þessara mögnuðu þátta munu bíða spenntir.