Framleiðendur dystópísku framtíðarþáttanna Black Mirror segjast ekki vera á bak við Trump
Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Black Mirror hafa staðfest að kjör Donalds Trump til Bandaríkjaforseta sé ekki markaðsbrella fyrir þessa dystópísku framtíðarþætti, en þriðja sería var nýlega gerð aðgengileg á Netflix.
„Þetta er ekki sjónvarpsþáttur. Þetta er ekki markaðsbrella. Þetta er raunveruleikinn,“ var skrifað á Twitter-reikning þáttanna á miðvikudag eftir að fjölmargir höfðu sagt úrslitin helst minna á atburðarás sem gæti verið teiknuð upp af handritshöfundum þáttanna.
„Ég fíla ekki þennan þátt af Black Mirror #Kosningakvöld,“ „þessi þáttur af Black Mirror er ógnvænlegur,“ og „er það svona að búa í þætti af Black Mirror #kosningakvöld“ voru nokkur dæmi um athugasemdirnar sem birtust á Twitter þegar úrslitin voru ljós.
Framvinda bandarísku forsetakosninganna þykir minna mikið á atburðarás þáttar í annarri seríu Black Mirror frá 2013, en þar býður teiknimyndapersóna úr vinsælum grínþætti sig fram til bæjarstjórnarkosninga. Teiknimyndabjörninn og kosningabarátta hans minnir um margt á Trump enda býður hann ekki upp á nein stefnumál heldur notfærir sér andúð almennings á stjórnmálum, rífur kjaft og hvetur til ofbeldis, til þess að ná kjöri.
Maðurinn á bak við Black Mirror, Charlie Brooker, hefur sjálfur sagt að sér hafi þótt sá þáttur hafa misst marks og verið allt of fjarstæðukenndur – þar til Donald Trump bauð sig fram til forseta.
This isn't an episode. This isn't marketing. This is reality.
— Black Mirror (@blackmirror) November 9, 2016
I don't like this episode of Black Mirror. #ElectionNight
— Jarrod Alonge (@JarrodAlonge) November 9, 2016
Is this what living in an episode of Black Mirror is like? #electionnight
— Stephanie Frosch (@ElloSteph) November 9, 2016
This episode of Black Mirror is terrifying
— TechnicallyRon (@TechnicallyRon) November 9, 2016