Caruso St. John arkitektar hljóta Stirling-verðlaunin í arkitektúr
Nýtt gallerí í eigu listamannsins Damien Hirst, Newport Street Gallery, hlaut bresku arkitektaverðlaunin Stirling prize á fimmtudag. Verðlaunin sem eru nefnd eftir breska arkitektinum James Stirling og hafa verið veitt frá árinu 1996 eru ein virtustu arkitektaverðlaun Bretlands.
Það er arkitektastofan Caruso St. John arkitektar sem hannaði galleríið sem er staðsett í nokkrum múrsteinabyggingum í Vauxhall-hverfinu í suðurhluta London. Galleríið er staðsett í röð gamalla verksmiðjubygginga sem áður hýstu smíðaverkstæði fyrir leikhússviðsmyndir og sviðsmuni. Það er sagt óvenjulega lágstemmt og hófsamt miðað við að það sé í eigu Hirst, en hann er þekktur fyrir að ganga fram af fólki með yfirgengilegum listaverkum sínum.
Aðrir sem voru tilnefndir til verðlaunanna í ár voru Herzog & de Meuron fyrir skólabyggingu við háskólann í Oxford, Loyn & Co fyrir villu Gloucestershire, Michael Laird og Reiach and Hall fyrir stúdentaíbúð í Glasgow, dRMM Arkitektar fyrir íbúðablokk við Elephant & Castle í London og Wilkinson Eyre Arkitektar fyrir bókasafn við háskólann í Oxford.