Sitt sýnist hverjum um atriði í þáttunum Poldark sem sýndir eru á RÚV
Breska ríkisútvarpið, BBC, liggur undir ámæli vegna atriðis sem sýnt var í hinum geysivinsælu þáttum, Poldark, í Bretlandi í gærkvöldi. Þættirnir eru sýndir á RÚV og fer hin íslenska Heiða Rún Sigurðardóttir með eitt af aðalhlutverkunum.
Þeim sem fylgjast með þáttunum og vilja ekki vita meira er ráðlagt að láta staðar numið við lestur þessarar greinar.
Í þættinum í gær sést Ross Poldark, sem leikinn er af Aidan Turner, heimsækja fyrrverandi kærustu sína, Elizabeth, sem leikin er af Heiðu. Hann kemur inn, óumbeðinn, og krefst þess að hún hætti við að giftast unnusta sínum, George Warleggan, sem jafnframt er erkióvinur Poldarks.
Elizabeth bregst við með því að segjast elska George og hún ætli sannarlega að giftast honum. Hún reynir hún að ýta Ross í burtu en Ross lætur ekki segjast, kyssir Elizabeth og nýtir líkamlegan styrk sinn til að koma fram vilja sínum.
Þegar Elizabeth sér í hvað stefnir, segir hún: „Þú myndir ekki dirfast. Þú myndir ekki dirfast.“ Ross svarar að bragði: „Jú, Elizabeth. Ég myndi og þú líka.“ Ross ýtir henni svo í rúmið og Elizabeth virðist gefa eftir í kjölfarið.
Þetta atriði hefur verið gagnrýnt nokkuð í breskum fjölmiðlum í morgun. Þannig segir Sarah Green, framkvæmdastjóri góðgerðarsamtakanna End Violence Against Women, að þarna sé um hreina og klára nauðgun að ræða.
„Hún segir „nei“ og við sjáum einnig líkamleg merki. Hún færir sig frá honum,“ segir hún og bætir við að í atriðinu gæti einnig ákveðinnar tvíræðni. Framleiðendur þáttanna hafi ekki viljað teikna Poldark upp sem ofbeldismann og þess vegna hafi þeir ákveðið að dansa á grárri línu og skilja það eftir í höndum áhorfenda að túlka atriðið og framgöngu Poldarks. Atriðið sem um ræðir má sjá hér neðst í fréttinni.
Í gagnrýni um þáttinn á vef Mail Online segir Christofer Stevens að BBC hafi ákveðið að setja þetta tiltekna atriði, sem hann segir að sé nauðgunaratriði, í klámfenginn búning. Hann segir að ein spurning hafi setið eftir hjá milljón áhorfendum sem horfðu á þáttinn, hvort Poldark hefði í raun og veru nauðgað Elizabeth: „Svarið er já, hvað er hægt að kalla þetta annað?“
Þættirnir eru byggðir á sögu Winstons Grahams og hafa þeir notið mikilla vinsælda hjá BBC.
Sonur Grahams, Andrew, hefur áður sagt að atriðið í þáttunum sé í samræmi við sama atvik í bókinni og þarna hafi ekki verið um nauðgun að ræða. Hann segir að eina leiðin til að dæma atriðið sé að lesa söguna í heild og sjá heildarmyndina. Það sem gerðist hafi verið með samþykki beggja aðila.
Debbie Horsfield, handritshöfundur Poldarks, segir við Guardian að engir tveir lesendur myndu sjá atriðið á sama hátt. „En við þurftum að ákveða hvað áhorfendur myndu sjá. Við vorum heppin að því leytinu að við nutum aðstoðar Andrews þannig að við gátum tryggt það að atriði í þáttunum yrðu í samræmi við það hvernig Winston sá söguna fyrir sér.“
Uppfært 13:28 – Myndbandið hefur verið fjarlægt af vef Daily Mail.