fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Fantasía byggð á reynslu leikstjórans sem innflytjandi

Jimmy Salinas etur saman indjánum og víkingum í stuttmyndinni Human Love

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 12. október 2016 07:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þessari viku hefjast tökur á stuttmyndinni Human Love, lokaverkefni Jimmy Salinas af tæknideild Kvikmyndaskóla Íslands. Myndin sem fjallar um samskipti indjána og víkinga í fornlegum fantasíuheimi byggir að nokkru leyti á upplifun leikstjórans sem innflytjandi, en Jimmy flutti til Íslands frá Kólumbíu fyrir 11 árum.

„Myndin fjallar mikið um hvernig við, mannkynið, ættum að meta hvert annnað, hvernig við getum lært að meta sérhverja manneskju. Hvernig ég næ að elska manneskju, hvernig við eigum eitthvað sameiginlegt, þú og ég, þó að við þekkjumst ekkert og hvernig við getum þróað með okkur vináttu, en ekki bara farið í einhvern misskilning og orðið hrædd – eins og fólk verður stundum,” segir Jimmy.

Um 30 manns koma að gerð myndarinnar, bæði samnemendur úr skólanum og reynsluboltar úr kvikmyndabransanum, en það er Aldís Amah Hamilton með fer með aðalhlutverkið.

„Sagan segir frá þremur stelpum sem ferðast til að leita nýrra landa og athuga hvort hægt sé að búa í allt öðru landi. Þær uppgötva nýtt land sem er svolítið eins og Ísland, það er kalt og það er mikill vindur. Þarna eru hlutir sem þær hafa ekki upplifað áður. Þetta norræna land er einhvers konar álfaheimur, þar eru álfar í víkingastíl. Þessi ferð gerist því í einhvers konar fantasíuheimi.“

Í myndinni blandar Jimmy saman tveimur ólíkum fornum menningarheimum, hinum suðuramerísku indjánum og norrænum víkingum, og má segja að þessir tveir hópar séu tákn fyrir hin ólíku heimalönd hans.

„Myndin er unnin út frá minni eigin upplifun af Íslandi. Ég fer alltaf að vinna út frá því hvaðan ég kem, hver ég er og hvert ég hef fært mig í heiminum. Ég var fimmtán ára þegar ég kom hingað. Myndin fjallar að hluta til um það hversu erfitt það er að koma til nýs lands og tengjast umhverfi sínu. Það er þó líka gaman, ákveðin spenna í því, maður er forvitinn að upplifa eitthvað nýtt. En svo er það mjög mismunandi eftir einstaklingum hvernig þeir takast á við það, sumir missa jafnvel vitið. Ég fæst svolítið við þetta í myndinni, þar eru sumir alveg að gefast upp á landinu á meðan aðrir vilja berjast áfram: „jú, ég get þetta!““

Ég var fimmtán ára þegar ég kom hingað. Myndin fjallar að hluta til um það hversu erfitt það er að koma til nýs lands og tengjast umhverfi sínu.

Það er ekki á hverjum degi sem fantasíukvikmyndir eru framleiddar á Íslandi.
Indjánar og víkingar Það er ekki á hverjum degi sem fantasíukvikmyndir eru framleiddar á Íslandi.

Í fyrri verkum sínum hefur Jimmy einnig unnið með reynslu sína sem innflytjandi á Ísland. „Ég var að klára stutta heimildamynd sem nefnist „Ég tala íslensku … með hreim.“ Hún fjallar um þolinmæðina sem Íslendingar þurfa að sýna til að hlusta á fólk tala íslensku með hreim,“ útskýrir hann.

„Ég held að Íslendingar séu almennt frekar þolinmóðir, en þetta tekur allt tíma. Undanfarin hundrað ár hefur lítið af útlendingum komið til íslands, en á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið. Fyrstu árin hér á landi fann ég fyrir því að ekki allir áttuðu sig á því að fólk gæti ekki komið hingað og talað tungumálið reiprennandi. En eftir hrunið fannst mér þetta breytast. Ég veit ekki af hverju, kannski af því að margt fólk héðan þurfti að flytjast til Noregs og annað, og svo fóru túristarnir líka að koma. Við höfum þurft að verða þolinmóðari. Það er mjög mikilvægt að fólk nenni að hlusta og tala við útlendinga, þá læra þeir miklu fljótar. Þá nær fólk að tala betur saman og eiga í samskiptum.“

Hægt er að styrkja verkefnið á hópfjármögnunarsíðu Karolina Fund – www.karolinafund.com/project/view/1525.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað