Þriðja árið sem verðlaunin eru veitt – Geysir verðlaunað fyrir fjárfestingu í hönnun
Hönnunarfyrirtækið As We Grow hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands árið 2016, en verðlaunin voru veitt í þriðja sinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á fimmtudag. Hönnunarverðlaun Íslands eru árlega veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hlýtur verðlaunahafinn eina milljón króna í peningaverðlaun.
As We Grow leggur áherslu á að hanna endingargóð og tímalaus barnaföt og leggur sérstaka áherslu á samfélagslega ábyrgð og umhverfisvernd í öllu framleiðsluferlinu. Fyrirtækið var stofnað árið 2011 af Guðrúnu Rögnu Sigurjónsdóttur prjónahönnuði, Maríu Th. Ólafsdóttur fatahönnuði og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði fyrst út frá ullarpeysu sem hafði ferðast á milli fjölmargra barna í tæpan áratug og alltaf haldið notagildi sínu.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Með vörulínunni tvinnar As We Grow saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða. As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“
Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.
Þrjú önnur verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna í ár: Lulla Doll-dúkkan sem er unnin af Eyrúnu Eggertsdóttur, Birnu Bryndísi Þorkelsdóttur og Sólveigu Gunnarsdóttur, leturstúdíóið Or Type en undir því nafni hafa grafísku hönnuðirnir Guðmundur Úlfarsson og Mads Freund Brunse hannað letur sem hefur farið mjög víða, og gagnvirka orkusýningin Orka til framtíðar í Ljósafossstöð, en hún er hönnuð af Gagarín og Tvíhorf Arkitektum.
Auk þess var fatafyrirtækið Geysir verðlaunað fyrir bestu fjárfestingu í hönnun, en sú viðurkenning er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka. Þetta er í annað skipti sem viðurkenningin er veitt.
Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Geysir hefur fengið einhverja færustu hönnuði landsins til starfa á öllum vígstöðvum, hvort sem við á um vörumerki, ímyndarsköpun, hönnun verslana, grafíska hönnun eða fatahönnun. Þannig hefur fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti. Með því að setja þátt hönnunar í öndvegi hefur Geysir á skömmum tíma náð einstökum árangri og er orðið eitt þekktasta vörumerki landsins.“