– Leikarinn sagðist frekar vilja skera sig á púls en að leika njósnara hennar hátignar
Framleiðendur kvikmyndanna um breska leyniþjónustumanninn James Bond vilja ólmir fá Daniel Craig til að leika njósnara hennar hátignar á ný. Craig hefur ekki enn staðfest að hann muni snúa aftur og virðist ekkert sérlega hrifinn af þeirri hugmynd líkt og kom fram í viðtölum við hann þegar nýjasta Bond-myndin, Spectre, kom út í fyrra.
Callum McDougall, sem hefur komið að framleiðslu allra James Bond-myndanna sem ratað hafa á hvíta tjaldið síðan 1987, sagði nýverið í viðtali við BBC að Craig sé enn fyrsti valkostur aðalframleiðenda kvimyndaseríunnar, þeirra Barböru Broccoli og Michael G. Wilson.
Craig hefur túlkað breska leyniþjónustumanninn í fjórum myndum en sú fyrsta var Casino Royale sem kom út árið 2006. Leikarinn sagði í október í fyrra að hann myndi frekar brjóta glas og skera á sér úlnliðina en að leika James Bond í fimmta skiptið.