Bryndís Loftsdóttir gerir upp menningarárið 2015: Mávurinn, barnabækur og bókaskattur
Í menningarannál ársins sem birtist í áramótablaði DV 29. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til fimmtán álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2015 og greina stöðuna í menningunni í árslok.
Hvað þótti þér eftirminnilegasta listaverk ársins 2015?
Uppfærsla Borgarleikhússins á Mávinum eftir Anton Tsjékhov með viðbættum texta eftir leikhópinn og Eirík Örn Norðdahl. Hugmyndarík leikstjórn og gáskafullt sköpunarfrelsi leikaranna lyftu þessu snilldarverki upp í nýjar hæðir. Einfaldlega ógleymanleg sýning.
Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?
(gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)
Jákvætt: Mikil gróska hefur verið í útgáfu skáldverka fyrir börn og ungmenni á árinu. Nýliðun hefur verið mikil og verkin metnaðarfull. Í raun má segja að mesta samkeppnin nú fyrir jól hafi verið á milli barnabóka. Nú vantar bara stuðning við skólabókasöfnin þannig að fjölbreytt úrval gæðalesefnis bíði barnanna okkar þar á hverjum degi.
Blendið: Ákvörðun Fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík um að breyta hátíðinni aftur í tvíæring eftir Listahátíð 2016. Örugglega ekki auðveld ákvörðun en gefur nýjum stjórnendum vonandi rými til að setja saman framúrskaradi metnaðarfulla dagskrá árið 2018.
Neikvætt: Sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að hækka virðisaukaskatt á bókum og tónlist upp í 11% í upphafi ársins 2015. Með þessari aðgerð komum við okkur í hóp þeirra fimm þjóða í Evrópu sem hæstan skatt leggja á bækur á sama tíma og íslensk tunga á í vök að verjast og fjöldi þeirra sem aldrei les bækur hefur nær tvöfaldast á síðast liðnum fjórum árum.
Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2015?
Listamenn hafa gefið sjálfum sér aukið rými í sköpun sinni. Skilin milli sköpunar og heimildarefnis hafa verið máð út. Fjölmargir listamenn hafa nýtt samfélagsmiðla vel til þess að koma verkum sínum á framfæri og þannig brúað óþarfa gjá sem lengi hefur verið til staðar á milli almennings og listamanna. Ég hef trú á því að með aukinni fræðslu um störf listamanna og þróun verka þeirra aukist bæði áhugi og skiliningur almennings á listsköpun. Pétur Gautur og Kristín Gunnlaugs eru gott dæmi um þetta en oft má sjá bæði verk í þróun og fullbúin verk á Facebook síðum þeirra.
Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:
Bob Cluness, tónlistargagnrýnandi og tónleikahaldari
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur.
Ingólfur Gíslason, ljóðskáld og stofnandi vefgallerísins 2015 er gildra.
Heiða Jóhannsdóttir, kennari í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Aude Busson, sviðslistakona.
Pétur Grétarsson, tónlistarmaður og umsjónarmaður Hátalarans á Rás 1.
Valur Antonsson, heimspekingur.
Katla Maríudóttir, arkitekt.
Njörður Sigurjónsson, dósent í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Hönnunarsafns Íslands.
Angela Rawlings, ljóðskáld.
Halldór Guðmundsson, rithöfundur og forstjóri Hörpu.