Fríða Björk Ingvarsdóttir gerir upp menningarárið 2015: Mengi, Vulnicura og fjársveltir háskólar
Í menningarannál ársins sem birtist í áramótablaði DV 29. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til fimmtán álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2015 og greina stöðuna í menningunni í árslok.
Eftirminnilegasta listaverk ársins 2015.
Það fyrsta sem kom upp í hugann er Vulnicura Bjarkar Guðmundsdóttur, sem kom út í byrjun árs. Björk tekst að ganga í endurnýjun lífdaga með hverju einasta verki, án þess þó að missa nokkurn tíma sjónar af sínum einstaka hljóðheimi, sem heimsbyggðin þekkir öll. Það eru ekki margir listamenn sem tekst að viðhalda listrænum gæðum, frjórri og skapandi hugsun, auk þess að gera tilraunir, áratugum saman. En Vulnicura höfðaði aukinheldur til mín sem ljóðabálkur um konur. Þar er að finna áleitna og glögga mynd af reynsluheimi kvenna, tilfinningum, ástinni og því sem er drifkrafturinn í lífinu. Sjónarhóll karla í verkinu er ekki síður áhugaverður því þar afhjúpast ólík afstaða kynjanna og tungutak, hefðir og samfélagslegt hlutverk. Þessi mikli efniviður kallast á við tónlistina í áleitinni og ögrandi heild.
Björk tekst að ganga í endurnýjun lífdaga með hverju einasta verki, án þess þó að missa nokkurn tíma sjónar af sínum einstaka hljóðheimi, sem heimsbyggðin þekkir öll.
Annars er af miklu að taka frá þessu ári. Moskan í Feneyjum og umræðan um hana var mikilvægt framlag til listarinnar – ekki bara hér á landi heimsvísu. Sýning Ragnars Kjartanssonar í Palais de Tokyo var líka umtalsverður áfangi í íslenskri myndlistarsögu. Ég sá reyndar ekki sýninguna sjálf, en það er afrek í sjálfu sér að vera valinn inn á slíkan sýningarvettvang.
Fyrir Listaháskólann var þessi mikla umræða í kringum sýningu listnemans Almars Atlasonar líka kærkomið tækifæri til að velta vöngum yfir vægi og tilgangi lista yfirleitt. Uppákoman í heild sinni sýndi ótvírætt hvers listir eru megnugar þegar þær koma við kvikuna í fólki.
Úr bókmenntaheiminum er eins og alltaf af mörgu að taka hér á landi en af því sem ég hef lesið er mér efst í huga Flækingurinn eftir Kristínu Ómarsdóttur og Stóri Skjálfti Auðar Jónsdóttur. Ég hef þó lesið minna á þessu ári en flest önnur, en þessar tvær bækur sitja í mér vegna eftirminnilegra efnistaka og ákaflega grípandi tengingar við samtímann – við ástand mannsandans eins og það birtist okkur í hversdagslífi sögupersóna, hvort heldur þær lifa í miðju eða jaðar samfélagsins.
Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?
Það er erfitt að draga fram eitthvað eitt sem er markverðast á hverjum tíma fyrir sig – við megum ekki gleyma því að menning og listir eru ekki keppnisíþrótt heldur fyrst og fremst myndbirting tíðarandan hvers tíma. Ég vil þó draga fram tilvist menningarbatterísins Mengis við Óðinsgötu í þessu samhengi, sem ákaflega markverðan menningarvettvang sem þegar hefur markað spor í íslensku listalífi. Mengi lætur lítið yfir sér en það sem gerir starfsemina svo áhugaverða er þáttur tilrauna og raunverulegs vilja til að takast á við listvettvanginn með einungis listrænan metnað á oddinum – umfram hagnaðarvon, kröfu um góða dóma, endurgjöf eða vinsældir. Ég hef ítrekað átt þar ótrúlegar stundir á árinu. Tónleikar helgaðir verkum Atla Heimis Sveinssonar, voru til að mynda mjög áhrifamiklir, en þar var m.a. frumflutt verk hans frá sjöunda áratugnum eins ótrúlegt og það kann að hljóma þegar í hlut á eitt merkasta tónskáld þjóðarinnar á 20. öld. Einnig var gaman að sjá Nordic Affect á tónleikum með Högna Egilssyni og svo fjölmargt fleira sem þar ratar inn á forsendum framsækinnar tilraunamennsku.
Og ef ég held mig á nótum menningarpólitískrar stefnumótunar þá finnst mér herferð SÍM, „Við borgum myndlistarmönnum“ merkilegur viðburður á síðasta ári. Ekki síst nú á 21. öldinni þegar allir ættu á vera búnir að átta sig á því að listamenn lifa ekki á loftinu frekar en aðrir. Okkur hættir til að gleyma því að listin er það sem lifir áfram þegar tíðarandi, pólitík og jafnvel heilu menningarheimarnir líða undir lok. Við ættum að vera stolt af því að horfa á stóru myndina í fjármögnun og fjárfestingum okkar samfélags, þar sem listirnar skipta sköpum við mótun þjóðarsálarinnar.
Það er einnig merkilegt að horfa upp á niðurlægingu RÚV einmitt á þeim tímamótum í tíðaranda og tækni þar sem slík stofnum þarf á sem mestum stuðningi að halda til að þróa nýjar aðferðir í miðlun og varðveislu menningararfsins – fyrir nú utan við að framleiða framsækið efni um íslenskan veruleika. Enginn fjölmiðill hefur jafn ríkar skyldur gagnvart þjóðarsálinni og því sértæka í okkar menningarheimi, en samt sem áður er verið að draga honum allan mátt.
Það er af áþekkum ástæðum sem mér finnst ástæða til að nefna fjármögnun háskólanáms hér á landi, sem miðað við þjóðartekjur og bættar aðstæður eftir að kreppunni tók að linna, ber vott um skammsýni. Fjársveltir háskólar munu ekki halda uppi viðunandi menntunarstigi þjóðarinnar með metnaðarfullum hætti til eilífðarnóns. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í betri lífskjörum fyrir bæði einstaklinga og samfélagsheildina. Við þurfum að horfa til þess að þróa nýjar námsleiðir, nýja kennsluhætti í samræmi við þarfir atvinnulífs á 21. öldinni, þar sem flest er ófyrirsjáanlegt annað en það að hreyfanleiki mun vera mikill og verðmætin liggja í nýsköpun í öllum skilningi.
Okkur skortir sterka pólitíska leiðtoga á sviði menningar – vanþekking stjórnmálamanna á menningu og listum og vægi þeirra fyrir samfélagið er oft á tíðum óforsvaranleg, fyrir nú utan hversu jaðarsett slík þekking er í stefnumótun sé hún á annað borð til staðar.
Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið / umræðuna á Íslandi árið 2015?
Það það sem auðveldast er að selja er oft því markinu brennt að vera tilbrigði við þekkt stef frekar en framsækið eða frumlegt
Átök hafa einkennt umræðuna, en það er í góðu lagi hvað listum viðkemur. Fólk á að takast á um listir, listirnar eru í eðli sínu þannig að þær ögra og vekja umræðu. Hins vegar finnst mér átakanlegt að sjá hversu litlum fjármundum er veitt til uppbyggingar menningarinnar; til reksturs safna, innkaupa á listaverkum; stuðnings við tónlistarflutning, hönnunarmiðstöð o.s.frv.; auk þess sem ég nefndi hér að ofan. Og iðulega án þess að tillit sé tekið til þeirrar afleiddu starfa og verðmæta sem hægt væri að skapa með aukinni framsýni og frumkvöðulsanda.
Vera má að markaðsvæðing listanna hafi verið óþarflega áberandi í umræðunni, ekki vegna þess að listir megi ekki seljast heldur vegna þess að það sem auðveldast er að selja er oft því markinu brennt að vera tilbrigði við þekkt stef frekar en framsækið eða frumlegt. Við höfum tilhneigingu til að vera sporgöngumenn í umræðu um menningu frekar en framverðir – jafnvel þótt menningarlífið hér í öllum sínum fjölbreytileika og krafti gefi tilefni til annars. Það sem er merkilegast á sviði menningar ratar ekki nægileg oft inn í umræðuna vegna skorts á faglegri yfirsýn og hugrekki til að takast á við og leita uppi það sem skiptir máli.
Lestu fleiri ársuppgjör úr menningarlífinu:
Bob Cluness, tónlistargagnrýnandi og tónleikahaldari
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur.
Ingólfur Gíslason, ljóðskáld og stofnandi vefgallerísins 2015 er gildra.
Heiða Jóhannsdóttir, kennari í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Aude Busson, sviðslistakona.
Pétur Grétarsson, tónlistarmaður og umsjónarmaður Hátalarans á Rás 1.
Valur Antonsson, heimspekingur.
Katla Maríudóttir, arkitekt.
Njörður Sigurjónsson, dósent í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Hönnunarsafns Íslands.
Angela Rawlings, ljóðskáld.
Halldór Guðmundsson, rithöfundur og forstjóri Hörpu.