Sýningar á þriðju þáttaröðinni af Fallinu (The Fall) hefjast í Bretlandi seinna í þessum mánuði. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur ættu að muna eftir þáttunum en þar lék Gillian Anderson lögreglukonuna Stellu sem eltist við raðmorðingja sem Jamie Dornan lék. Raðmorðinginn, Paul Spector, var í hjónabandi og átti eina dóttur en í frístundum myrti hann konur á hrottafenginn hátt. Síðustu þáttaröð lauk með því að hann var skotinn og svo virtist sem hann hefði látist í örmum Stellu. Það hlýtur að hafa verið blekking því erfitt væri að halda þræði í þriðju þáttaröðinni án hans.
Jamie Dornan, sem sýndi mikil tilþrif í hlutverki raðmorðingjans, hefur síðan öðlast frægð fyrir túlkun sína á Christian Grey í Fimmtíu gráum skuggum. Hann segir að þátttaka sín í Fallinu hafi verið sinn leiklistarskóli og Gillian Anderson er sömuleiðis ánægð og segir að hlutverk Stellu sé uppáhaldssjónvarpshlutverk sitt, ásamt hlutverki Blanche í Sporvagninum Girnd.
Þættirnir fengu mikið áhorf og lof gagnrýnenda, þótt einstaka raddir hafi kvartað undan ofbeldisatriðunum sem sýna morð á konum. Gillian Anderson segir þá gagnrýni byggða á misskilningi; leikstjóri og handritshöfundur þáttanna sé að sýna hversu illa sé farið með konur í þessum heimi. Hún bætir svo snaggaralega við að þeim sem líki ekki við þættina þurfi ekki að horfa á þá.