Rachel Ward er enn sár út í gagnrýnendur
Í heimildaþáttunum Frumherjar sjónvarpsins sem RÚV sýnir á mánudagskvöldum var fjallað um míní-seríur, þar á meðal The Thorn Birds, Þyrnifuglana. Þættirnir fjölluðu um ástir prests, sem Richard Chamberlain lék, og ungrar konu, en Rachel Ward fór með hlutverk hennar. Þættirnir nutu gríðarlegrar hylli og fengu metáhorf. Í þættinum var rætt við þessa tvo aðalleikara, Chamberlain var sáttur og glaður með sitt en leikkonan geðþekka var fremur döpur. Í ljós kom að á þeim áratugum sem hafa liðið frá því þættirnir voru sýndir hefur hún enn ekki gleymt vondu dómunum. Hún nefndi það sérstaklega í viðtalinu að ólíkt helstu meðleikurum sínum hefði hún á sínum tíma ekki verið tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn. Til að bæta gráu ofan á svart höfðu gagnrýnendur Newsweek og New York Times gefið leikkonunni skelfilega vonda dóma fyrir frammistöðu hennar í þáttunum. Í kjölfarið missti hún sjálfstraustið og dró sig að mestu í hlé frá kvikmyndaleik.
„Þetta var skelfileg lífsreynsla,“ sagði leikkonan sem sagðist aldrei hafa jafnað sig og velti því fyrir sér hvort gagnrýnendur gerðu sér grein fyrir því hversu mjög þeir gætu sært fólk með dómum sínum. Ég segi nú bara að ef gagnrýnendur ættu stöðugt að taka tillit til viðkvæms tilfinningalífs listamanna þá myndu þeir aldrei treysta sér til að kveða upp aðra dóma en þá jákvæðu.
Rachel Ward var ekki tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í Þyrnifuglunum en hún var hins vegar tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir frammistöðu sína þar. Leikkonan mundi ekki eftir því og heldur ekki eftir því að umheiminum líkaði bara ansi vel við hana í hlutverkinu. Gagnrýnendur Newsweek og New York Times voru greinilega enn að angra sálarlíf hennar, áratugum eftir að hafa kveðið upp dóma sína. Leikkonan var viðkunnanleg í þessu viðtali en manni fannst að hún ætti að bera höfuðið hátt og leyfa sér smá hroka eins og þann að hugsa: „Hver man eftir því hverjir voru gagnrýnendur á Newsweek og New York Times þegar ég lék í Þyrnifuglunum? Enginn! Ekki er verið að gera heimildamynd um þá en það er verið að tala við mig.“
Stundum er sagt að listamenn muni allt til dánadægurs eftir vondu dómunum sem þeir fengu og hugsi meira um þá en þá góðu. Það virðist eiga við Rachel Ward.