Önnur þáttaröðin af Poldark er komin á dagskrá RÚV. Poldark, sem er að sumu leyti myrkur karakter, á í vök að verjast gagnvart þeim sem vilja hengja hann í hæsta gálga. Demelza, trygga eiginkona hans, stendur við hlið hans og Elísabet, fyrrverandi unnusta hans, reynir einnig að veita aðstoð sína. Ég er dauðhrædd um að Poldark eigi eftir að halda framhjá konu sinni með Elísabetu. Ég fordæmi slíka gjörð. Ég stend með Demelzu sem er trygg, staðföst og hugrökk. Poldark verður að átta sig á því að grasið er ekki grænna hinum megin.
Fyrsti þátturinn í nýju þáttaröðinni endaði með óvæntum hvelli í bókstaflegri merkingu þess orðs, því hleypt var af skoti. Maður getur ekki beðið eftir að sjá næsta þátt og fá viðeigandi skýringar, þótt mann gruni hvað það var sem þarna gerðist. Það er mikið drama í vændum.
Reyndar virðumst við ekki þurfa að hafa alltof miklar áhyggjur af örlögum Poldarks þar sem tilkynnt hefur verið um gerð þriðju þáttaraðar, sem yrði aldrei að raunveruleika án þessarar gölluðu hetju.
Nú eru sunnudagskvöldin á RÚV orðin ljómandi góð, með Orðbragði og Poldark. En ekkert jafnast samt á við mánudagskvöldin þar sem hinn æsispennandi Næturvörður heldur okkur límdum við skjáinn.