fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024

Komu með nótur í farteskinu

Óðinn Melsted er höfundur bókar um erlenda tónlistarmenn á Íslandi – Guðni Th. hvatti hann til að skrifa bókina

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 14. september 2016 16:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óðinn Melsted sagnfræðingur er höfundur bókarinnar Með nótur í farteskinu en þar er fjallað um erlenda tónlistarmenn á Íslandi á árunum 1930–1960. Sögufélagið gefur bókina út.

Óðinn lærði sagnfræði við Háskóla Íslands, fór síðan í meistaranám í Evrópufræðum og er nú í doktorsnámi við háskólann í Innsbruck í Austurríki. Faðir hans er íslenskur og móðir hans austurrísk og sjálfur er hann fæddur og uppalinn í Austurríki þar sem hann býr nú. Hann segir að íslenskur og austurrískur bakgrunnur hans eigi þátt í áhuga hans á erlendum tónlistarmönnum sem komu hingað til lands. En fleira kemur til.

„Ég er sjálfur tónlistarmaður, hef leikið á trompet frá unga aldri. Þegar ég ákvað að fara til Íslands í háskólanám hóf ég að leika með ýmsum hljómsveitum og kynntist því á vissan hátt sjálfur að vera erlendur tónlistarmaður á Íslandi, enda hlaut ég allt mitt tónlistaruppeldi í Austurríki. Svo hef ég lengi þekkt Pál Pampichler sem kom til landsins árið 1949 til að spila á trompet með Sinfóníuhljómsveitinni og giftist ömmusystur minni á Íslandi. Hann bjó á Íslandi í fjóra áratugi en flutti svo aftur til Austurríkis um það leyti sem ég fæddist. Ég hef alltaf þekkt hann sem Pál frænda í Graz, eða Onkel Pauli, því ég hef aldrei talað neitt annað en austurrísku við hann.

Þegar að því kom að semja lokaritgerð í sagnfræði þótti mér tilvalið að fjalla um þessa erlendu tónlistarmenn. Og svo varð ritgerðin að bók. Þess má til gamans geta að það var þáverandi forseti Sögufélagsins, Guðni Th. Jóhannesson, sem hvatti mig til að skrifa þessa bók. Án hans hefði hún líklega aldrei orðið til.

Bakgrunnur minn endurspeglast líka í bókinni því að hún skiptist í tvo hluta, alveg eins og ég er bæði íslenskur og austurrískur. Í fyrri hlutanum er sagan skoðuð frá íslensku sjónarhorni og í síðari hlutanum segi ég söguna út frá sjónarhorni erlendu tónlistarmannanna, lýsi bakgrunni þeirra, skýri af hverju þeir ákváðu að halda til Íslands og segi frá því hvernig þeir upplifðu dvölina.“

Ráðnir samkvæmt samningi

Hvaðan komu þessir tónlistarmenn og af hverju komu þeir hingað?

„Alls voru þetta um 100 manns, karlar og konur, sem fluttu hingað til að starfa við tónlist. Þetta fólk kom aðallega frá þýskumælandi löndum, en sumir líka frá Danmörku, Englandi, Ungverjalandi og fleiri löndum. Upp úr 1930 fara Íslendingar að flytja inn erlent tónlistarfólk, kennara til að kenna við tónlistarskólana, hljóðfæraleikara til að spila á skemmtistöðum í bænum og svo komu aðrir, sérstaklega upp úr 1950, til að spila með Sinfóníuhljómsveitinni.

Í umræðunni er oft talað eins og þetta fólk hafi aðallega verið flóttamenn og gyðingar. En í raun og veru var bara einn gyðingur í þessum hópi, Heinz Edelstein. Þrír aðrir tónlistarmenn komu hingað út af gyðingaofsóknum nasista, en voru samt ekki gyðingar. Það voru Victor Urbancic, en kona hans var af gyðingaættum, Albert Klahn, sem átti líka konu sem var af gyðingaættum, og svo Róbert Abraham, sem var gyðingaættar en samt kaþólskur. Þar er engin ástæða til að halda því fram að það hafi aðallega verið gyðingar sem settu svip á tónlistarlífið. Flestir tónlistarmenn komu af því að þeir voru ráðnir samkvæmt samningi og fannst spennandi að fá að starfa á Íslandi, en ekki af því að þeir væru á flótta undan hakakrossinum.“

Andblær evrópskrar borgaramenningar

Tóku Íslendingar vel á móti þessum erlendu tónlistarmönnum?

„Yfirleitt voru móttökurnar mjög góðar en á því voru þó einhverjar undantekningar. Stéttarfélag íslenskra hljómlistarmanna var stofnað 1932 og sinnti hagsmunum íslenskra hljóðfæraleikara sem spiluðu á skemmtistöðum. Stéttarfélagið lagðist eðlilega gegn því að skemmtistaðir réðu til sín erlendar hljómsveitir og erlenda tónlistarmenn. Þessi andstaða beindist samt ekki persónulega gegn erlendu tónlistarmönnunum sem hér voru, heldur leit stéttarfélagið á þetta sem prinsippmál.

Á þessum tíma komu fleiri innflytjendur til Íslands en tónlistarfólk. Árið 1949 kom hingað til lands þýskt landbúnaðarverkafólk sem varð vissulega fyrir fordómum. Erlendu tónlistarmennirnir sögðust hins vegar lítið hafa orðið fyrir fordómum.“

Hvaða máli skipti koma þessara tónlistarmanna fyrir tónlistarlíf á Íslandi?

„Þetta fólk hafði allt áhrif á sínum vettvangi og lagði sitt af mörkum til að hraða uppbyggingu tónlistarlífsins. Nokkrir tónlistarmenn höfðu verið sérstaklega ráðnir sem kennarar við Tónlistarskólann í Reykjavík og höfðu þar mjög mikil áhrif, menn eins og Franz Mixa, Hans Stepanek og Heinz Edelstein. En það voru ekki bara þeir sem höfðu áhrif. Ég komst til dæmis að því að það voru tvær konur sem kenndu í dreifbýlinu, María Fick Eðvarðsdóttir á Snæfellsnesi og Rut Gröschl Magnúsdóttir á Eyrarbakka. Þær voru organistar, kenndu börnum á tónlist, sáu um kirkjukórinn og höfðu þannig mikil áhrif.

Aðrir sem komu til að spila á skemmtistöðum höfðu mikil áhrif á skemmtistaðamenninguna sem varð til á þessum árum. Þeir komu með andblæ evrópskrar borgaramenningar til Íslands. Svo eru þeir sem voru sérstaklega sóttir til landsins til að spila í Sinfóníuhljómsveitinni, en án þeirra hefði varla verið hægt að flytja sinfóníur, allavega á fyrstu árunum.

Niðurstaðan er sú að á því tímabili sem ég fjalla um, 1930–1960 verða gífurlegar breytingar í tónlistarlífi Íslendinga. Á þessum tíma þróaðist tónlistarlífið hér á landi, bæði í skemmtitónlist og klassískri tónlist, í átt til þess að verða eins og gerðist í umheiminum. Auðvitað má ekki gleyma að það voru ekki bara útlendingar sem stuðluðu að þessari þróun heldur einnig Íslendingar. En koma erlendra tónlistarmanna varð sannarlega til að hraða uppbyggingu íslensks tónlistarlífs.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Svarar dóttur sinni sem lét allt flakka í nýju viðtali: Fyllibytta sem er aldrei til staðar – ,,Þú ert með símanúmerið mitt“

Svarar dóttur sinni sem lét allt flakka í nýju viðtali: Fyllibytta sem er aldrei til staðar – ,,Þú ert með símanúmerið mitt“
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Héldu að 11 ára dóttirin væri heiladauð – 4 árum síðar vaknaði hún og skýrði frá öllu

Héldu að 11 ára dóttirin væri heiladauð – 4 árum síðar vaknaði hún og skýrði frá öllu
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Harmleikurinn í Halifax

Harmleikurinn í Halifax
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sjáðu rauða spjald Duran gegn Newcastle – Sanngjörn niðurstaða?

Sjáðu rauða spjald Duran gegn Newcastle – Sanngjörn niðurstaða?
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Mun United borga 75 milljónir fyrir arftaka Rashford?

Mun United borga 75 milljónir fyrir arftaka Rashford?
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Jólasaga lögreglumanns – Hana ættu allir að lesa

Jólasaga lögreglumanns – Hana ættu allir að lesa
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Hjálpaði unnustunni við heimilisþrifin í fyrsta sinn – Endaði með skelfingu

Hjálpaði unnustunni við heimilisþrifin í fyrsta sinn – Endaði með skelfingu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sakamál ársins II: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði

Sakamál ársins II: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði