100 ár frá fæðingu barnabókahöfundarins
Í ár eru hundrað ár liðin frá fæðingu Roalds Dahls, eins besta barnabókahöfundar sögunnar. Bretar minnast metsöluhöfundarins með hlýju en hann lést árið 1990, 74 ára gamall. Á dögunum sýndi Channel 4 sérstakan þátt um barnabækur höfundarins þar sem frægir einstaklingar, þar á meðal Steven Spielberg og Julie Walters, töluðu um uppáhaldsbarnabók sína eftir Dahl. Meðan á þættinum stóð gafst almenningi kostur á að kjósa um bestu barnabók höfundarins. Barnabókahöfundurinn vinsæli David Walliams hafði umsjón með þættinum, en hann hafði áður sagt að líklegast væri að Kalli og sælgætisgerðin yrði fyrir valinu sem besta barnabók Dahls.
Niðurstaðan varð önnur, sem sagt sú að Matilda var valin besta barnabók Dahls. Í bókinni er sagt frá hinni gáfuðu og bókelsku Matildu sem á illa innrætta foreldra og það er ekki til að bæta ástandið að í skólanum lendir Matilda upp á kant við grimmlyndan skólastjóra. Matilda hefur komið út á íslensku, líkt og fjölmargar aðrar barnabækur þessa einstaka höfundar.