fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024

Konur sem skandalíseruðu

Yngvi Leifsson er höfundur bókar um íslenska flökkukonu – Vinnur að doktorsritgerð um vændiskonur í Salamanca

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 9. september 2016 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yngvi Leifsson sagnfræðingur hefur í sumar setið á Þjóðskjalasafninu og lesið gamlar dómabækur, en sú elsta er frá miðri 17. öld. „Ég les þessar bækur vandlega og skrifa úrdrátt um það sem stendur í þeim og það fer inn á dómabókagrunn sem hægt verður að skoða á netinu. Þegar grunnurinn er tilbúinn verður hægt að leita þar að einstökum dómum.“

Yngvi býr á Spáni og sinnir þessu verkefni Þjóðskjalasafnsins einnig þar, í fjarvinnu. Hann er að leggja lokahönd á doktorsritgerð sína við háskólann í Salamanca. Ritgerðin fjallar um vændi í Salamanca á 18. og 19. öld.
Áður en talið berst að vændi í Salamanca spyr blaðamaður Yngva um aðrar rannsóknir hans, sem eru rannsóknir á íslensku flökkufólki. „MA-ritgerðin mín fjallar um flökkufólk og þegar ég vann að henni las ég einmitt dómabækurnar og fann þar yfirheyrslur yfir flökkufólki. Þannig gat ég skrifað sögu hvers og eins einstaklings sem þar kom við sögu og tók þær síðan saman. Þannig sá ég skýrt hvað voru mýtur um flökkufólk og hvað er byggt á sannleika.“

Hverjar voru mýturnar?

„Mýturnar voru einna helst þær að flökkufólk hefði að stórum hluta verið listamenn og spekingar. Sólon Íslandus hafi því verið erkitýpa flökkufólks, en það er fjarri lagi, hann var bara einn og sér. Mestmegnis var þetta fólk sem ferðaðist um og var að leita sér að vinnu.“

Lagðist út með álfum

Í lok síðasta árs kom út bók Yngva, Með álfum, þar sem fjallað er um flökkukonuna Ingiríði Eiríksdóttur frá Haga í Aðaldal en hún fæddist árið 1777 og lést 1857, áttræð. Hann er spurður af hverju Ingiríður hafi vakið áhuga hans, umfram annað flökkufólk.

„Ég var að rannsaka dómabækurnar og sá þá ítrekað nafnið Ingiríður Eiríksdóttir. Hún var að eiga sitt annað, þriðja og fjórða barn í lausaleik, en samanlagt átti hún fimm börn með jafnmörgum mönnum. Hún var einnig handsömuð fyrir þjófnað og svo auðvitað flakk. Hún vakti forvitni mína og á endanum var ég kominn með nægilega mikið efni í bók sem fjallar eingöngu um hana.

Móðir Ingiríðar var rekin úr vist þegar hún varð ólétt að henni og send yfir í næstu sókn þar sem hún þurfti að leita sér að nýju heimili. Þar fæddist Ingiríður á Haga í Aðaldal og var eftir það á ýmsum bæjum í sveitinni, fyrst hjá ömmu sinni og afa. Rótleysið hófst mjög snemma. Hún var ung farin að flakka um sveitina og svo lengdust ferðirnar. Hún var tvítug þegar hún fór frá Þingeyjarsýslu yfir í Eyjafjörð þar sem hún var í nokkur ár. Hún flakkar síðan fram og til baka milli Eyjafjarðar og Húnavatnssýslu en þegar hún kemur að landamörkum Þingeyjarsýslu þá snýr hún alltaf við. Það er eins og hún vilji ekki fara þangað. Það eru engar haldbærar upplýsingar um ástæður þess. Mér datt í hug að hún hefði orðið fyrir illu umtali, hugsanlega vegna þess að hún taldi sig eiga í samskiptum við álfa. Jón Espólín var sýslumaður á þessum tíma í Skagafirði og minnist tvisvar á Ingiríði í bókum sínum og segir eitthvað á þessa leið: „Kom að norðan og lagðist út með álfum“ og: „Flæktist að norðan og þóttist vera með álfum“.“

Konur sem voru dæmdar

Yngvi er spurður um doktorsritgerðina um vændið í Salamanca. „Vændishverfið í Salamanca var á sínum tíma eitt mikilvægasta vændishverfið í Evrópu. Mér fannst áhugavert að rannsaka þetta vændi, aðskilja mýturnar frá sannleikanum, kanna hvernig vændið hófst, hvaða konur fóru í vændi og af hverju. Í Salamanca er vændiskvennanna ennþá minnst. Mánudagur eftir páska er frídagur í Salamanca, en vændiskonur í bænum voru fyrr á tímum sendar yfir ána í páskavikunni, svo þær væru ekki sýnilegar. Á mánudeginum eftir páska fóru bæjarbúar síðan niður að áni og tóku á móti þeim. Í dag er til siðs að bæjarbúar fari niður að ánni á þessum frídegi og borði þar nesti sitt.

Ég leitaði mánuðum saman í skjalasöfnum í Salamanca en fann þar engin skjöl um vændiskonur. Einn daginn fann ég tilskipun frá Franco. Hann var með bækistöðvar sínar í Salamanca í borgarastríðinu, og þegar pappírsskortur varð fyrirskipaði hann að allir pappírar sem vörðuðu fyrsta dómstig í Salamanca yrðu endurunnir. Í þeim skjölum var einmitt fjallað um afbrot eins og vændi, þannig að þeim heimildum var eytt.

Ritgerð mín hefur þróast á þann hátt að hún fjallar núna ekki eingöngu um vændi heldur einnig um konur sem skandalíseruðu, og þar á meðal eru fjölmargar vændiskonur. Það var markað í lögum kirkjunnar hvað það væri að skandalísera. Það hugtak var mjög vítt og því hægt að kæra nánast alla fyrir að skandalísera. Á þessum tíma gátu karlmenn látið loka eiginkonur sínar inni í sérstöku kvennafangelsi ef þeim þótti þær hafa brotið gegn þeim, til dæmis með framhjáhaldi. Karlmaðurinn fór þá til prests og þeir komu sér saman um það hversu löng refsivist konunnar yrði. Ritgerðin snýst um þessar konur sem voru dæmdar, líf þeirra og bakgrunn og kvennafangelsin.“

Fræðirit um flökkufólk

Doktorsritgerðin mun nær örugglega verða að bók á Spáni. „Ég efast um að hún komi út á íslensku, ekki nema ég þýði hana sjálfur einhvern tímann,“ segir Yngvi og bætir við: „Mig langar líka til að skrifa fræðirit um flökkufólk á Íslandi. Þar yrði fjallað um flakkara á ákveðnu tímabili og sagt frá lífi þeirra. Í lokin myndi ég síðan bera alla flakkarana saman og skoða hvað þeir áttu sameiginlegt og hvað ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Maguire orðaður við fleiri áhugaverða áfangastaði

Maguire orðaður við fleiri áhugaverða áfangastaði
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Hann skildi ekki af hverju móðir hans hvarf alltaf í nokkra tíma á aðfangadagskvöld – Síðan kom bréfið

Hann skildi ekki af hverju móðir hans hvarf alltaf í nokkra tíma á aðfangadagskvöld – Síðan kom bréfið
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Varð brugðið þegar reikningurinn kom og hún sá verðið – Sjón er sögu ríkari

Varð brugðið þegar reikningurinn kom og hún sá verðið – Sjón er sögu ríkari
Pressan
Fyrir 19 klukkutímum

Fundu hið fullkomna jólatré og drösluðu því heim – Fengu áfall þegar þau stilltu því upp

Fundu hið fullkomna jólatré og drösluðu því heim – Fengu áfall þegar þau stilltu því upp
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“
433Sport
Í gær

Tíu mest lesnu fréttir ársins – Málefni Alberts Guðmundssonar áberandi

Tíu mest lesnu fréttir ársins – Málefni Alberts Guðmundssonar áberandi
Fréttir
Í gær

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“