Sjáðu stiklu úr kvikmyndinni Grimmd sem verður frumsýnd í október
Óhætt er að segja að talsverð eftirvænting ríki vegna kvikmyndarinnar Grimmd sem frumsýnd verður hér á landi þann 21. október næstkomandi. Myndin segir frá ungum systrum, Sigrúnu og Höllu, sem hverfa af leikvelli í Árbænum og finnast svo látnar í Heiðmörk.
Í kjölfarið fer af stað flókin lögreglurannsókn á hvarfi og láti stúlknanna. Stikla úr myndinni var frumsýnd í dag en þar má sjá rannsóknarlögreglumanninn Jóhannes Schram, sem Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur, yfirheyra mann vegna málsins. „Þú dróst tvær stúlkur inn í bíl, keyrðir upp í Heiðmörk, og myrtir þær,“ segir hann.
Myndinni er leikstýrt af Anton Sigurðssyni og með helstu hlutverk í myndinni fara þau Sveinn og Margrét Vilhjálmsdóttir. Fleiri þekktir leikarar koma einnig fram í myndinni, meðal þeirra Atli Rafn Sigurðarson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Hannes Óli Ágústsson.
Konstantín Mikaelsson, yfirmaður kvikmyndadeildar Senu sem framleiðir myndina, sagði í samtali við Vísi fyrir skemmstu að þar á bæ gerðu menn sér vonir um að myndin yrði ein aðsóknarmesta mynd ársins.
„Við erum að spá því að þetta gæti orðið ein af tveimur stærstu íslensku myndum ársins og í okkar plönum gerum við ráð fyrir að hún verði á topp 10 listanum okkar þegar árið er gert upp,“ sagði Konstantín.