Á meðan ofurhetjurnar eru heldur farnar að slappast hefur 2016 verið sumar teiknimyndanna. Meistaraverk á borð við Zootropolis keppa við framhaldsmyndir eins og Ice Age 5 og hina klúru Sausage Party. Og einhvers staðar á milli er þessi hér.
Finding Nemo frá 2003 var ein skemmtilegasta teiknimyndin sem þá hafði verið gerð en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, ef svo má að orði komast. Hér er ekki alveg sami ferskleikinn á ferðinni, eða kannski kemur það bara ekki lengur á óvart þegar teiknimynd reynist betri en margt fullorðinsbíó.
Framhaldsmyndin er þeim annmarka háð að á meðan minnislausi gullfiskurinn var skemmtileg aukapersóna þarf hún hér að bera uppi heila mynd. Og minnisleysi voru betri skil gerð í Memento, þó gullfiskalaus væri.
Dory er ekki jafn mikið fyrir hugann og meistaraverk á borð við Inside Out, en hittir að mestu beint í hjartastað.
Þó er margt vel gert. Kolkrabbinn Hank er stórskemmtileg viðbót og stelur reglulega senunni. Neðansjávarheimurinn er fallegur á að líta þó að mestur hluti myndarinnar gerist í búrum og er hugmyndaríkt hvernig fiskunum tekst að flakka á milli. Sem fyrr er eitthvað við þessar persónur sem gerir það að verkum að maður heldur svo innilega með þeim.
Og þó að sá boðskapur að allir hafi eitthvað til málanna að leggja sé fallegur finnst manni stundum sem of mikil áhersla sé lögð á að drífa bara í hlutunum og að Marlin, sem vill ávallt skipuleggja allt fyrst, fái heldur bágt fyrir, sem er ekki endilega boðskapur sem Íslendingar þurfa á að halda.
Dory er ekki jafn mikið fyrir hugann og meistaraverk á borð við Inside Out, en hittir að mestu beint í hjartastað.