Eitt sinn var J.K. Rowling einstæð móðir sem barðist í bökkum og hugleiddi sjálfsmorð. Í dag er hún ein dáðasta kona heims og allt sem hún snertir verður að gulli. Leikrit um Harry Potter, Harry Potter and the Cursed Child, er að slá í gegn í London og uppselt er á allar sýningar fram í maí og bók sem byggir á leikritinu selst eins og heitar lummur.
Í nóvember verður frumsýnd kvikmyndin Fantastic Beasts and Where to Find Them sem byggð er á samnefndri bók Rowling frá árinu 2001. Aðalpersóna myndarinnar er töframaðurinn Newt Scamander sem eltist þar við stórhættulegar skepnur. Óskarsverðlaunahafinn Eddie Redmayne er í aðalhlutverkinu.
Rowling er handritshöfundur myndarinnar en þetta er fyrsta kvikmyndahandrit hennar. Hún er jafnframt meðframleiðandi myndarinnar sem á að vera sú fyrsta í þríleik. Ekki er að efa að aðdáendur Rowling víða um heim muni sjá til þess að myndin fá metaðsókn.