Leikritið Stripp verður sýnt í Tjarnarbíói- Sögð vera bæði grátbrosleg og gagnrýnin sýning
Leikverkið Stripp, sem byggir á reynslu eins höfundanna sem nektardansari, verður opnunarverk sviðslistahátíðarinnar Everybody‘s Spectacular í lok ágúst, en hátíðin er samsuða alþjóðlegu sviðslistahátíðarinnar Lókal og Reykjavík Dance Festival. Verkið verður enn fremur opnunarsýning leikársins í Tjarnarbíói – heimili sjálfstæðra sviðslista, í byrjun september.
Sýningin sem er samstarfsverkefni Olgu Sonju Thorarensen, leikkonu og dansara, og sviðslistadúettsins Dance For Me, er sögð í senn grátbrosleg og gagnrýnin. Verkið er sagt velta upp flóknum spurningum um hlutverk kvenna í samfélaginu jafnt sem leikhúsinu, um líkama, drusluskömmun, kynlífsiðnaðinn, mismunandi aðgengi að peningum og atvinnumöguleikum, um siðferði og frelsi einstaklingsins.
Verkið byggir á reynslu Olgu Sonju sem starfaði um tíma sem nektardansari í Þýskalandi, en starfið tók hún að sér eftir að hafa komið sér í skuld við Landsbankann sem hún vildi greiða upp á eigin spýtur. Olga er útskrifuð af leiklistarbraut Listaháskóla Íslands, hún hefur unnið með danska sviðslistahópnum SIGNA, þegar hópurinn sýndi við Volksbühne-leikhúsið í Berlín. Hún var einn af stofnendum sviðslistahópsins TBN sem frumsýndi sitt fyrsta verk, MEAT, á hátíðinni F.I.N.D. í Schaubühne í Berlín.
Sviðslistahópurinn Dance For Me, sem er skipaður þeim Pétri Ármannssyni og Brogan Davison, var stofnaður utan um samnefnda sýningu sem frumsýnd var á Akureyri vorið 2013 og hefur sýnt sýningar sínar víðs vegar um Ísland og á alþjóðlegum listahátíðum víða í Evrópu. Í verkunum Dansaðu fyrir mig og Petra hafa þau unnið með sviðsetningu raunverulegs fólks og leikið sér á mörkum raunveruleika og sviðsetningar.