Sýningar á annarri þáttaröðinni af breska framhaldsmyndaflokknum Poldark hefjast í Bretlandi næstkomandi september og verið er að undirbúa gerð þeirrar þriðju. Í annarri þáttaröðinni kastar franska byltingin dimmum skugga yfir lífið í Cornwall. Þættirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda í Bretlandi og einnig hér á landi en hin íslenska Heiða Rún (Heida Reed) er í einu aðalhlutverkinu. Aðalleikarinn Aidan Turner, sem hefur vakið mikla athygli fyrir túlkun sína á Poldark, segist vera tilbúinn til að leika í fleiri þáttaröðum en þessum þremur. Þættirnir eru byggðir á skáldsögum Winston Graham um Poldark. Þær eru alls tólf og voru skrifaðar á árunum 1945–2002 og spanna áratugi í lífi Poldarks og fjölskyldu hans. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur þurfa vonandi ekki að bíða of lengi eftir að sýningar á annarri þáttaröðinni hefjist hér á landi, en RÚV sýndi þá fyrstu við miklar vinsældir.