Söngvamynd, endurgerð á Disney-teiknimyndinni vinsælu,Fríða og Dýrið, verður frumsýnd snemma á næsta ári. Emma Watson er í hlutverki Fríðu sem verður fangi Dýrsins sem breski leikarinn Dan Stevens leikur. Paige O’Hara, sem ljáði Fríðu rödd sína í teiknimyndinni og framhaldsmyndum, hefur boðist til að vera Watson innan handar í söngtímum.
Watson varð heimsfræg fyrir túlkun sína á Hermione í Harry Potter-myndunum og er ötul kvenfrelsiskona. Stevens er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Matthew Crawley í Downton Abbey og aðdáendur þáttanna syrgðu mjög þegar sú góða persóna lést í bílslysi og skildi eftir sig unga ekkju, Mary, og nýfæddan son. Meðal annarra leikara í myndinni eru Luke Evans, Emma Thompson, Ewan McGregor, Ian McKellan, Kevin Kline og Stanely Tucci. Myndarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu enda einvala lið leikara þarna á ferð. Sagan er síðan hugljúf og spennandi og lögin hreint dásamleg. Allt ætti að geta smollið saman. Leikstjóri er Bill Condon sem meðal annars leikstýrði Chicago og Dreamgirls.