Hrútar Gríms Hákonarsonar og Hross í oss í leikstjórn Benedikts Erlingssonar eru á lista sem ritstjórn hins breska Sunday Times gerði yfir þær 100 erlendu kvikmyndir sem eru í uppáhaldi hjá henni. Á listanum eru marglofaðar klassískar myndir leikstjóra eins og Kurosawa, Visconti, Truffaut, Godard, Fellini, Renoir, Bergman, Bunuel og fleiri snillinga. Þarna má nefna myndir eins og Sjö samúraja, La dolce vita, La grande Illusion, Persona, Belle de jour, Rashomon, Diva, A bout de souffle, Stríð og frið (rússnesku útgáfuna) og Fitzgeraldo, svo einhverjar séu nefndar.
Innan um þessi meistaraverk eru síðan þessar tvær nýlegu íslensku myndir sem fengu á sínum tíma mjög góða dóma breskra gagnrýnenda, eins og víða annars staðar. Í umfjölluninni um myndirnar eitt hundrað er söguþráður myndanna rakinn í mjög stuttu máli. Báðar myndirnar lenda í flokki sem nefnist Beittar þjóðfélagslegar gamanmyndir. Myndirnar hafa unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum.