fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Ennþá bannað að vera fáviti

Stefán Magnússon heldur þungarokkhátíðina Eistnaflug í tólfta sinn – Opeth, Meshuggah og Sólstafir koma fram

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 5. júlí 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eistnaflug er eins konar þjóðhátíð þungarokkarans. Aðra helgina í júlí frá árinu 2004 hefur áhugafólk um þungarokk lagt Neskaupstað undir sig. Fimmtíu gestir mættu á fyrstu hátíðina en hin síðari ár hafa allt að tvö þúsund manns fyllt Egilsbúð og hlýtt á það besta í þungarokksenunni. Hátíðin í fyrra fór í sögubækurnar sem ein stærsta tónlistarhátíð sem haldin hefur verið hérlendis. Í ár fer Eistnaflug fram dagana 6. til 9. júlí og hefur hátíðin aldrei verið stærri í sniðum. Hátíðin hefur ekki aðeins vakið athygli fyrir fjölbreytt gæðarokk. Á Eistnaflugi hefur aldrei verið kærð nauðgun eða ofbeldisbrot.

Hátíðin er hugarfóstur Stefáns Magnússonar íþróttakennara en hann hefur haft veg og vanda að undirbúningi frá upphafi. Stefán hefur greint frá því að hann myndi leggja hátíðina af ef kynferðisbrot yrði kært til lögreglu og vísar alfarið á bug að um þöggunartilburði sé að ræða. Þá gagnrýnir hann Uppbyggingarsjóð Austurlands harðlega fyrir að neita að styrkja hátíðina. Þar fyrir utan er Stefán brattur og lofar taumlausri gleði í fjóra daga þar sem 77 sveitir stíga á svið. Í þeim hópi eru risar í íslenska og erlenda rokkheiminum.

Magni fagnar og sænskir rokkrisar stíga á svið

Stofnandi þungarokkhátíðarinnar Eistnaflugs.
Stefán Magnússon Stofnandi þungarokkhátíðarinnar Eistnaflugs.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stærstu hljómsveitirnar í ár eru Meshuggah og Opeth. „Þetta eru sænskir tuddar. Risar í rokkheiminum og í raun magnað að hafa náð þeim hingað til lands,“ segir Stefán. „Þá mæta stærstu íslensku sveitirnar eins og Sólstafir, Dimma, Agent Fresco, HAM, Ensími, The Vintage Caravan og Misþyrming.

Stefán segir að gestir megi fyrir alla muni ekki missa af Perturbator sem stígur á svið á föstudaginn. Magni Ásgeirsson fagnar því svo á morgun að tíu ár eru liðin frá því að hann tók þátt í hæfileikaþættinum Rockstar. „Dimma verður með eitt rosalegasta „show“ sem sést hefur á föstudeginum.“

„Það er bannað að vera fáviti og ekkert helvítis rugl!“

Það hefur vakið athygli að aldrei hefur kynferðisbrot verið kært á Eistnaflugi. Þá hefur enginn verið handtekinn fyrir að beita ofbeldi. Eitt af slagorðum hátíðarinnar er: „Það er bannað að vera fáviti og ekkert helvítis rugl!“. Stefán hefur sagt að hann myndi slútta hátíðinni ef alvarlegt kynferðisbrot endaði inni á borði lögreglu.

Hvernig er tekið á slíkum tilburðum?

„Ef við tölum aðeins á alvarlegri nótum þá umber ég ekki fávitaskap og hef ekki áhuga á því að fá fólk á Eistnaflug sem beitir ofbeldi. Það segir sig sjálft að þegar þú ert að vinna í heilt ár við að skipuleggja viðburð þá viltu ekki fá ofbeldismenn á svæðið. Þeir skemma fyrir öllum og það þarf bara einn svona fávita til að eyðileggja heila hátíð.“

Sænsku rokkrisarnir í Opeth koma fram í Neskaupstað um næstu helgi.
Sænskir tuddar Sænsku rokkrisarnir í Opeth koma fram í Neskaupstað um næstu helgi.

Mynd: Photo by: Michael Johansson

Stefán bætir við að aðdáunarvert sé að fylgjast með gestum sem gæta hver annars. Til séu fjölmargar sögur af gestum sem hafi gripið inn í þegar tónlistargestum hafi orðið heitt í hamsi eða orðið líklegir til að verða sér til skammar. „Þá mæta gestirnir og benda á að það sé bannað að vera fávitinn sem kemur hátíðinni í blöðin fyrir það að lemja einhvern, eða ætla að stela úr búðinni og viðkomandi er stoppaður af því svona gerir þú ekki. Ég elska þetta hugarfar.“

Ef nauðgun er kærð á hátíð þá gekk ekkert vel og helgin var ekki góð. Það eru stundum alveg einstakar fyrirsagnir eftir verslunarmannahelgina.

Hann segir ekkert eðlilegt að sjá fyrirsögn í blaði á mánudegi um að nauðgun hafi verið kærð en annars hafi helgin verið frábær og hátíðin gengið vel. „Slíkt getur ekki gengið upp. Ef nauðgun er kærð á hátíð þá gekk ekkert vel og helgin var ekki góð. Það eru stundum alveg einstakar fyrirsagnir eftir verslunarmannahelgina.“

Neita að styrkja

Það vakti athygli í fyrra þegar Stefán greindi frá því að Uppbyggingarsjóður Austurlands neitaði að styrkja Eistnaflug. Aðspurður hvort eitthvað hafi breyst í þeim efnum svarar Stefán: „Nei. Ekkert hefur breyst og það er galið, svo ég sé hreinskilinn. Það er engin hátíð á Austurlandi sem fær eins marga gesti austur á land eins og Eistnaflug. Bræðslan trekkir mjög vel líka og fær heldur ekki styrk frá UA og það sama gildir um Hammond-hátíðina. Þessar hátíðir sem eru ekki í náðinni hjá UA draga svona 6.000 manns austur á land og miðað við hversu dapurt ferðamannasumarið var fyrir austan í fyrra þá finnst mér það sérstakt að klappa ekki þessum hátíðum á bakið fyrir vel unnin störf.“

Þöggunartilburðir

„Ég hef alveg sagt það að ef það kæmi upp ljót ofbeldismál á Eistnaflugi þá myndi ég persónulega skoða minn gang og hvort ég myndi halda áfram að skipuleggja þennan viðburð. Á sama tíma hef ég fengið ábendingar að það séu þöggunartilburðir þegar ég segist jafnvel hætta að með Eistnaflug ef ljót mál kæmu upp.“

„Ég myndi aldrei biðja neinn um að þegja yfir alvarlegu ofbeldi. Það er galin pæling. Ég er í liði með öllum á Eistnaflugi.“

Í fyrra lék pólska svartmálmssveitin Behemoth í troðfullu íþróttahúsi Neskaupstaðar.
Risanöfn Í fyrra lék pólska svartmálmssveitin Behemoth í troðfullu íþróttahúsi Neskaupstaðar.

Mynd: DV ehf / Kristján Guðjónsson

Yngri en 12 ára fá frítt

Að öðru leyti segist Stefán kátur og spenntur fyrir stærstu hátíðinni hingað til. Vonast hann til að sjá sem flesta. Börn eru einnig velkomin á hátíðina. Margir yngri rokkunnendur hafa þurft að hverfa frá út af ströngum reglum, en í ár er breyting á.

„Við erum svo ofboðslega ánægð með að tilkynna að börn eru innilega velkomin á flottustu rokkhátíð Íslands í fylgd með forráðamönnum! 12 ára og yngri fá frítt inn. Ungir sem aldnir eru velkomnir á Eistnaflug. Þetta verður óendanlega fallegt!“

Stefán segir að lokum

„Keyrið varlega, gefið ykkur tíma í ferðalagið og njótið þessa að ferðast um fallega landið okkar. Pössum svo vel upp á hvert annað, skemmtum okkur fallega og förum brosandi heim á sunnudaginn.“

Nánar má skoða dagskrá hátíðarinnar á heimasíðu hennar www.eistnaflug.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2