Harry Potter and the Cursed Child, leikrit um Harry Potter, verður frumsýnt á West End í London 30. júlí næstkomandi. Leikritið er byggt á sögu eftir J.K. Rowling, Jack Thorne og John Tiffany. Thorne vann handrit sýningarinnar eftir sögunni og Tiffany leikstýrir en leikritið er í tveimur hlutum. Sagan gerist nítján árum eftir að síðustu Harry Potter bókinni lauk og aðalpersónurnar eru Harry Potter og sonur hans, Albus Severus Potter. Handrit sýningarinnar kemur út í bók 31. júlí.
Það hefur vakið athygli að hörundsdökk leikkona, Noma Dumezweni, er í hlutverki Hermione Granger, sem Emma Watson lék í kvikmyndunum. Ekki hafa allir tekið þessu vali vel og ummæli netverja hafa mörg hver verið lítt falleg. J.K. Rowling hefur risið upp til varnar og segir að aldrei hafi komið fram í bókunum að Hermione væri hvít.
Noma Dumezweni þykir frábær sviðsleikkona og hefur unnið til Olivier-verðlaunanna. Leikarinn Jamie Parker fer með hlutverk Harry Potter í leikritinu.
Frumsýningar er beðið með mikilli eftirvæntingu og miðar, sem þegar eru komnir í sölu, hafa selst eins og heitar lummur.