Þjálfari Christinu Grimmie rétti fram hjálparhönd
Söngvarinn Adam Levine borgaði fyrir jarðarför Christinu Grimmie, en hann var þjálfari hennar í hinum gríðarlega vinsæla þætti The Voice í Bandaríkjunum. Grimmie var lögð til hinstu hvílu í New Jersey fyrir nokkrum dögum. Hún var myrt fyrr í þessum mánuði af manni sem gekk að henni eftir tónleika hennar í Orlando og skaut hana þar sem hún var að gefa eiginhandaráritun. Bróðir Grimmie réðst á árásarmanninn sem skaut sjálfan sig til bana. Ekki er vitað hvers vegna hann myrti hina 22 ára gömlu söngkonu. Grimmie vakti athygli í The Voice árið 2014 þar sem Adam Levine var þjálfari hennar og hreppti hún þriðja sætið í keppninni. Eftir morðið á Grimmie hringdi söngvarinn í móður hennar og bauðst til að borga fyrir útförina.