Katie Holmes fer með hlutverk Jacqueline Kennedy Onassis í sjónvarpsmyndaflokknum The Kennedys: After Camelot. Þættirnir eru fjórir og verða frumsýndir snemma árs 2017 í Bandaríkjunum. Um er að ræða framhald af sjónvarpsþáttunum The Kennedys þar sem Holmes fór með hlutverk Jackie. Matthew Perry, vinur okkar úr Friends, fer með hlutverk Ted Kennedy og Kristen Hager leikur eiginkonu hans, Joan. Alexander Siddig, sem leikið hefur í Game of Thrones, fer með hlutverk skipakóngsins Aristotle Onassis, seinni eiginmanns Jackie.
Þættirnir gerast eftir morðið á John F. Kennedy og lýsa hjónabandi Jackie og Onassis sem varð sögulegt og ekki hamingjuríkt en Jackie var löngum fjarri eiginmanni sínum. Skilnaður þeirra var talinn yfirvofandi og Onassis var aftur farinn að hitta fyrrverandi ástkonu sína, óperusöngkonuna Mariu Callas. Áður en til skilnaðar kom lést Onassis 69 ára gamall.
Þættirnir The Kennedys voru sýndir víða um heim en hlutu fremur dræmar móttökur gagnrýnenda. Það kom ekki í veg fyrir að þættirnir væru tilnefndir til verðlauna, þar á meðal Emmy-verðlauna. Þættirnir hlutu verðlaun, þar á meðal hlaut Barry Pepper verðlaun fyrir túlkun sína á Robert Kennedy.