Fimm íslenskir nýliðar á Secret Solstice sem fer fram í Reykjavík um helgina
Tónlistarhátíðin Secret Solstice hófst í gær, fimmtudaginn 16. júní. Á hátíðinni koma fram heimsþekktir listamenn á borð við Radiohead, Deftones, Die Antwoord, Jamie Jones, Roisín Murphy, Action Bronson, St. Germain og Goldie. Hátíðin er þó ekki síðri vettvangur til að sjá nýjabrumið í íslensku indípoppi, rappi og raftónlist. Þetta eru þeir ung- og nýliðar sem blaðamaður DV stefnir á að heyra og sjá.*
@Gimli á sunnudag klukkan 20.20.
Hinn 16 ára Aron Can hefur vakið mikla athygli í vor fyrir blandspóluna „Þekkir Stráginn,“ letilegt trap og heilbrjósta R’n’B söngrapp um tilfinningar, jónuglóðir, æskudrauma og samskipti kynjanna. Þetta eru stærstu tónleikar þessa ungstirnis hingað til, en hann hefur verið duglegur að koma fram undanfarna mánuði og mun eflaust vera með vel slípaða og ferska tónleikadagskrá. Ekki missa af þessu!
@Fenrir á föstudag klukkan 19.30.
Alvia Islandia hefur verið að gera dansvæna rapptónlist í nokkur ár og er raunar að koma fram í þriðja skipti á Secret Solstice. Undanfarið hefur hún lokað sig af inni í stúdíóinu og afrakstur erfiðisins, platan BubblegumBitch, kemur út á næstunni og því líklegt að Alvia verði í miklu stuði á hátíðinni.
Hver er Alvia Islandia?
„Bubble up blow GumGumClan cozyslider … Malandi með hundunum.“
Hvað ert þú búin að skapa tónlist lengi?
Tók upp fyrsta lagið mitt 16 ára. Bara gaman!
Hvernig myndir þú lýsa tónlistinni sem þú gerir?
„MellodyBass mantraTantra rap trap.“
Hver eru umfjöllunarefnin?
„Á nýju plötunni minni, sem heitir BubblegumBitch, er ég að fjalla um allt frá hvað það er „nice“ að vera „single“, í að ég komst aldrei inn í MH og hvað það er gott að tyggja tyggjó og muna að taka vítamín.“
Hvað munt þú bjóða upp á á Secret Solstice?
„Bassa, Flow Bubble UP blow ! HubbaBubba Squatts zone.“
Fyrir hverju ert þú sjálf spenntust á Solstice?
„Die Antwoord og Goldie.“
Hvar er hægt að heyra tónlistina þína?
„BubblegumBitch platan mín kemur út í byrjun næstu viku og hana verður hægt að nálgast í Lucky Records, Smekkleysu og Gumgumclan.com svo er ég með tónlist inni á Soundcloud og Youtube. Mjaaw.“
@Ragnarök á laugardag klukkan 15.15.
Það er litlar upplýsingar að fá um rafpoppsveitina aYia sem mun koma í fyrsta skipti fram á Secret Solstice á laugardag. Meðlimir sveitarinnar hafa verið virkir í nokkrum hljómsveitum í indítónlistarsenunni og í fleiri listgreinum og hefur DV áreiðanlegar heimildir fyrir því að þetta sé gott stöff. Ásta Fanney, söngkona sveitarinnar, svaraði spurningum blaðamanns.
Hvað er aYia?
„aYia er hættulegasta faðmlag Íslands.“
Hvað eruð þið búin að skapa tónlist lengi?
„Við erum búin að gera tónlist í svona tvö ár saman, góðir hlutir gerast hægt. Tónleikarnir á Secret Solstice eru okkar fyrstu tónleikar.“
Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni sem þið gerið?
„Eins og bíl sem er alveg við þig að spóla í hringi í „slow motion“ og það rignir sandi á vanilluísinn þinn. Og já, það er trap hop skotið skuggapopp í spilun í græjunum.“
Hver eru umfjöllunarefnin?
„Hvernig maður flýtur sofandi vakandi sofandi að feigðarósi í vatni sem er djúpt og kalt.“
Hvað munið þið bjóða upp á á Secret Solstice?
„Óhugnanlega skýjahnoðra.“
Fyrir hverju eruð þið sjálf spenntust á Solstice?
„Die Antwoord.“
Hvar er hægt að heyra tónlistina ykkar?
„Aðeins á tónleikunum á Solstice eins og er.“
@Fenrir á föstudag klukkan 15.30
Hinn snjallnefndi Krabba mane er 19 ára takt- og tónsmiður úr Reykjavík. Tónlistin er bassadrifið hip-hop sem sækir innblástur í ýmsa kima þess tónlistarheims, trap og fjölbreytta raftónlist. Tónlistin er á köflum dansvæn en yfirleitt köld, drunga- og töffaraleg. Í fyrra sendi Krabba mane frá sér plötuna Harkan666 ásamt hópnum sínum sem nefnist BeigeBoys.
@Askur á laugardag klukkan 13.00
Ástvaldur er ungur íslenskur tónlistarmaður og hljóðlistamaður sem er búsettur í Berlín þar sem hann semur tilraunakennda raftónlist, sem fer frá lágstemmdu drungalegu „glitchi“ yfir í hraða takta innblásna af klúbbatónlist. Hann hefur einnig leikið með sveitunum Vald og My Brother is Pale, en nú verður hann einn á ferð.
Hver er Ástvaldur?
„Ástvaldur er 24 ára listamaður og eigandi plötufyritækisins oqko.“
Hvað ert þú búinn að skapa tónlist lengi?
„Ég hef verið að gera tónlist síðan ég man eftir mér. Hins vegar hef ég verið að gera tónlist undir mínu nafni í einhverri alvöru í um það bil eitt ár eða síðan ég flutti til Berlínar.“
Hvernig myndir þú lýsa tónlistinni þinni?
„Ég vil helst ekki lýsa tónlistinni minni. En yfirleitt reyni ég að gera hverja sekúndu spennandi.“
Hver eru umfjöllunarefnin?
„Þegar ég geri tónlist undir mínu nafni reyni ég alltaf að vera eins persónulegur og ég get. Platan sem kemur út í september fjallar mikið um femínisma og er nokkuð klámfengin í raun, en það er mjög undirliggjandi. Ég vann mikið með spurningar um klám og hvernig samfélagstuðlar geta breyst með auknu stafrænu aðgengi.“
Hvað munt þú bjóða upp á á Secret Solstice?
„Ég mun spila lög af væntanlegri plötu minni sem kemur út næstkomandi september, í bland við nokkur remix. Ég breyti lögunum samt alltaf talsvert þegar að ég spila „live“ og spila mikið eftir eyranu.“
Fyrir hverju ert þú sjálfur spenntastur á Solstice?
„Ég er mjög spenntur að sjá einn besta vin minn, Lvis Mejía. Kelela er söngkona sem ég hef fylgst með nokkuð lengi þannig að það verður gaman að sjá hana. En það hefur alltaf draumur að sjá Radiohead. Búinn að fylgjast með þeim ansi lengi.“
Hvar er hægt að heyra tónlistina þína?
„Það er hægt að nálgast upptöku af tónleikum hjá mér inni á vefsíðunni minni, www.astvaldur.org. En ég gef út fyrstu plötuna mína At Least á vínyl í september í gegnum útgáfufyrirtækið og „collectivið“ oqko.“