25 milljónum úthlutað úr Hönnunarsjóði
Fyrsta stóra úthlutun hönnunarsjóðs á árinu var kynnt í Sjávarklasanum, Grandagarði 16, í gær, fimmtudaginn 26. maí. 86 umsóknir bárust sjóðnum en 18 verkefni voru styrkt um samanlagt 25 milljónir króna, en auk þeirra hlutu fimmtán hönnuðir ferðastyrki að verðmæti 1,5 milljónir króna. Hægt var að sækja um í fjórum flokkum; þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki.
Hæstu styrkina, þrjár milljónir króna, hlutu fatahönnuðurinn Magnea Einarsdóttir, sem hannar föt undir merkinu MAGNEA, og hönnunartvíeykið Hugdetta, sem fékk styrkinn til að þróa vörur og sýningar tengdar verkefninu 1+1+1, sem parið vinnur í samstarfi með sænskum og finnskum kollegum.
Fjögur verkefni hlutu tveggja milljóna króna styrk, það voru Hrafnkell Birgisson fyrir sjálfbæru sólarluktina Sólskin, fatahönnuðurinn Katrín Alda Rafnsdóttir fyrir Kalda skór, Niklas Dahlström fyrir Íslenskt náttúruhús og skartgripasmiðurinn Katrín Ólína til að markaðssetja skartgripalínuna Primitiva.
Styrki á bilinu 500 til 1.500 þúsund hlutu Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, Brynhildur Pálsdóttir, RoShamBo, Alvara, Logi Höskuldsson, Friðrik Steinn Friðriksson, Hildigunnur Sverrisdóttir, Anna María Bogadóttir, Gunnar Vilhjálmsson, Dóra Hansen, Helga Björg Kjerúlf, Tanja Levý og Krads.