Leikarinn hefur fengið frábæra dóma fyrir frammistöðu sína í þáttunum
BBC hefur hafið sýningar á síðustu þáttaröðinni sem sjónvarpsstöðin gerði eftir bókum Henning Mankell um lögreglumanninn Kurt Wallander en þar fer stórleikarinn Kenneth Branagh með aðalhlutverkið. Í þessari síðustu þáttaröð glímir Wallander ekki einungis við erfið sakamál heldur tekst hann á við andlega hrörnun, en hann er fórnarlamb Alzheimer. Branagh hefur leikið Wallander af og til síðustu ár, á milli annarra verkefna, og hefur fengið frábæra dóma fyrir leik sinn.
Það er nóg að gera hjá Branagh, hann mun fara með hlutverk Archie Rice í hinu þekkta leikriti Johns Osborne, The Entertainer, og leikstýra kvikmynd sem gerð er eftir sögunum um Artemis Fowl og leika í stórmyndinni Dunkirk sem Christopher Nolan leikstýrir. Í nýlegu viðtali var hann spurður hvernig hann fyndi tíma fyrir öll þessi verkefni. Branagh svaraði: „Ég er ekki á Twitter, ég hef aldrei notað Facebook og svara töluvpósti seint. Ég sinni vinnunni minni og ver tíma með konunni minni.“