fbpx
Föstudagur 14.mars 2025

Gagnrýnin á tímum internetsins

Auður Aðalsteinsdóttir ritstýrir vefritinu Hugrás – Skrifaði doktorsritgerð um bókmenntagagnrýni

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 25. apríl 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er oft talað um að fólk vilji bara lesa stuttar greinar á netinu, svo það hefur komið mér á óvart að það eru lengri greinarnar sem fá mesta athygli og viðbrögð,“ segir Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og ritstjóri Hugrásar, vefrits hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Vefsíðan hefur verið efld til muna að undanförnu og birtist þar reglulega menningarumfjöllun, gagnrýni og pistlar innan úr háskólasamfélaginu þar sem hugvísindum er beitt á málefni líðandi stundar – hvort sem það eru flóttamenn, stjórnmál eða Justin Bieber.

Auður hefur fengist við og velt menningarfjölmiðlun fyrir sér um nokkurt skeið, hún hefur stýrt útvarpsþáttum um bókmenntir, starfrækti menningartímaritið Spássíuna í fjögur ár og vann doktorsverkefni um bókmenntagagnrýni á íslenskum almannavettvangi.

Blaðamaður DV hitti Auði í kaffikrók Bóksölu stúdenta og ræddi um sögu íslenskrar bókmenntagagnrýni, áhrif internetsins á menningarumfjöllun og vefritið Hugrás.

Frá Fjölni til fríblaðanna

Jónas Hallgrímsson skrifaði ritdóm um Tristransrímur Sigurðar Breiðfjörð í Fjölni árið 1837.
Fyrsti ritdómarinn Jónas Hallgrímsson skrifaði ritdóm um Tristransrímur Sigurðar Breiðfjörð í Fjölni árið 1837.

„Í doktorsverkefninu mínu lagði ég upp með að kanna íslenska ritdóma, vald ritdómarans og þá valdatogstreitu sem hefur farið þar fram. Ég kannaði frekar vítt svið, alveg frá upphafi fjölmiðlunar og fram til okkar daga,“ segir Auður.

„Vald ritdómarans er mjög sérstakt. Í raun er það mjög ótryggt, en fólki finnst það engu að síður mjög ógnandi. Það er erfitt að skilgreina hvaðan ritdómarinn hefur þetta vald, hann starfar á mörkum ólíkra sviða og fær valdið úr ólíkum áttum. Kannski þess vegna verður hann oft svolítið ógnvekjandi fígúra í hugum fólks. Það reynir svo að draga úr því með því að gera hann hlægilegan eða gróteskan. Það er alltaf verið að ögra þessu valdi og draga það í efa.“

Hvenær byrja ritdómar fyrst að birtast á íslenskum almannavettvangi?

„Á fyrri hluta nítjándu aldar fara bókalistar að birtast í Skírni og þá fylgja stundum umsagnir um bækurnar. Þorgeir Guðmundsson guðfræðingur var til dæmis mjög áhugasamur, hafði greinilega fylgst með bókmenntaumræðunni í Danmörku og byrjaði smám saman að koma með vísi að ritdómum. En það er ekki fyrr en 1837 sem birtist löng ritgerð þar sem eitt verk er tekið fyrir og dæmt út frá fagurfræðilegum forsendum, þegar Jónas Hallgrímsson skrifar það sem hefur verið kallað fyrsti ritdómurinn,“ segir Auður og vísar þá til skrifa Jónasar um Tristransrímur Sigurðar Breiðfjörð í Fjölni.

Hvernig hafa íslenskir ritdómar þróast síðan þá?

„Undir lok 19. aldarinnar og í kringum aldamótin varð mikil gróska í blaðaútgáfu. Ritdómar urðu fljótt mjög stór hluti af þessu nýja landslagi og mikilvæg textategund. Þeir urðu stór hluti af menningarumræðunni og það myndaðist sterk hefð. Alveg frá upphafi hafa þeir gegnt mikilvægu hlutverki i menningarpólitík. Þeir gegndu til dæmis hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni, þá var þeim ætlað að efla íslenskar bókmenntir í þágu þjóðarinnar. Síðan fóru þeir að gegna miklu hlutverki í flokkapólitík, en líka í fagurfræðilegri togstreitu milli manna – til dæmis togstreitu milli raunsæis og rómantíkur. En ég held að það sé ein ástæða þess að þeir virðast ekki jafn mikilvægir í dag, þetta pólitíska eða hugmyndafræðilega vægi þeirra er ekki jafn mikið.“

Markaðslega hlutverkið ekki nóg

„Í prentmiðlunum fór þetta að breytast eftir að flokksblöðin koðnuðu niður og fríblöðin komu fram. Forsendur ritdómanna urðu markaðslegri. Auðvitað hafa ritdómar alltaf líka haft markaðslegt vægi. Það var jafnvel upphaflega hugmyndin þegar þeir komu fram. Bækur voru að verða aðgengileg markaðsvara og ritdómunum var ætlað að hjálpa fólki að velja hvaða bækur það ætti að lesa og hverjar ekki. Ritdómar eru alltaf í og með slík þjónusta. Við megum ekki vanmeta það, eða láta eins og það skipti ekki máli,“ segir Auður.

Ég held að það sé ein ástæða þess að ritdómar virðast ekki jafn mikilvægir í dag, þetta pólitíska eða hugmyndafræðilega vægi þeirra er ekki jafn mikið.

„En það er eiginlega ekki nóg til að halda mikilvægi þeirra – þeir þurfa þessa hugmyndafræðilegu vídd líka. Ef hlutverk þeirra er bara markaðslegt þá getur skort viljann til að gagnrýna harkalega. Pólitíkin gefur mjög mikla orku, og það hefur oft verið mjög mikil orka í ritdómum, í umræðunni um ritdóma, í svörum við þeim og svo framvegis.“

En er eitthvað hægt að segja um áhrif ritdóma í íslenskum bókmenntum?

„Það er ljóst að þeir hafa verið mjög stór hluti af menningarumræðunni alla 20. öldina. Oft voru margir gagnrýnendur að skrifa dóma um sömu bókina og þá sköpuðust oft miklar umræður, svo ég held að það sé alveg ljóst að það hefur haft áhrif. Það eru einnig dæmi um að höfundar hafi tekið sér hlé, jafnvel hætt að skrifa út af ritdómum, eða þeir hafa orðið til þess að beina rithöfundum inn á ákveðnar brautir, breyta áherslum eða beina þeim í ákveðna rás.“

Ritúalískt form ritdómsins

„Þegar ritdómar voru fyrst að koma fram var ekki algjört prentfrelsi og fólk mátti ekki segja hvað sem var. En þá sköpuðu ritdómarnir ákveðinn ramma og innan þess hafði fólk leyfi til að gagnrýna harkalega, án þess að taka tillit til þess hvort höfundurinn væri virt manneskja eða eitthvað slíkt. Það er í rauninni ætlast til þess að gagnrýnandi sé algjörlega heiðarlegur og harkalegur ef þarf – það er hans skylda við menninguna og samfélagið, að gagnrýna. Formið sjálft er svolítið fast og hefur ekki mikið breyst frá upphafi, það verður nánast ritúalískt. Það eru þessir grundvallarþættir: kynna bókina, segja frá eða lýsa henni og fella svo dóm eða leggja mat á hana. Auðvitað er mismunandi hvernig fólk hefur gert það, hvort það lýsir lestrarupplifuninni, dregur fram andrúmsloft bókarinnar, eða nálgast hana öðruvísi,“ segir Auður.

Hvernig blasir staðan í bókmennta- og listgagnrýni við þér núna á tímum internetsins?

„Mér finnst áhugavert að ritdómar eins og við þekkjum þá virðast ekki hafa náð að blómstra á netinu. Kannski er það vegna þess að þeir eru afurð prentmiðlanna og mjög tengdir þessu formi, þessum kennivaldslega tón sem fylgir þeim miðli. Það verður kannski svolítið erfiðara að fella dóma á netinu. Það er jafnvel strax búið að grafa undan þér um leið og þú birtir eitthvað. Það er spurning hvort ritdómar eins og við þekkjum þá virki í þessu nýja umhverfi. Hvort við þurfum að endurhugsa þetta, eða hvort eitthvað nýtt þróist af sjálfu sér,“ segir hún.

Það hefur eiginlega ekki verið pláss fyrir ritdóma á vefsíðum prentmiðlanna. Þeir ná helst að blómstra á vefsíðum á vegum ýmissa stofnana

„Mér finnst líka áhugavert að það hefur eiginlega ekki verið pláss fyrir ritdóma á vefsíðum prentmiðlanna. Þeir ná helst að blómstra á vefsíðum á vegum ýmissa stofnana, eins og til dæmis Borgarbókasafnsins [www.bokmenntir.is]. Menn verða að hafa eitthvað annað en vonina um gróða. Þú þarft að hafa hugsjón um að þetta hafi eitthvert gildi. Fjölmiðlar virðast ekki hafa bolmagn til þess lengur. Þú þarft þess vegna ákveðin svæði þar sem fólk er viljugt til að halda þessu úti – og það er tilraunin með Hugrás. Háskólinn ákvað að setja meiri kraft og mannskap í að efla menningarumfjöllunina.“

Ef þessi þróun er óumflýjanleg velti ég fyrir mér hvort menningarumfjöllun verði þá ekki bara að afmörkuðum kima sem áhugafólk þarf að sækja sérstaklega í en er ekki hluti af almennri umræðu.

„Við erum að reyna að bregðast við þessu með því að hafa síðuna öfluga, setja efni reglulega inn og vera með stöðugt flæði. Síðan notum við Facebook og samskiptamiðla til að reyna að koma efninu á framfæri. Ef maður verður áberandi þar er maður kominn inn í þessa almennu umræðu – þessi hróp og köll á Facebook,“ segir Auður og bendir einnig á að mikið sé lagt upp úr útliti og myndrænni framsetningu, en sá þáttur er í höndum Sóleyjar Stefánsdóttur, vefhönnuðar og myndaritstjóra.

Í viðleitni til að ná betur til almennings hefur Hugrás einnig verið í samstarfi við Fréttablaðið og birt pistla af síðunni í blaðinu á tveggja vikna fresti. Hún segir greinarnar á Hugrás vera ætlaðar almenningi, þær séu oftast aðgengilegar og fjalli um málefni líðandi stundar, en þó leyfi höfundarnir sér vissulega að gerast fræðilegir.

„Háskólafólk er oft að einbeita sér að því að skrifa í akademísk fræðirit, en það er oft óaðgengilegt fyrir almennning. Á Hugrás erum við með svipaðar umræður, en á léttari nótum og í styttri útgáfu, þar sem fólki gefst færi á að fá alls konar vinkla á umræðuna,“ segir Auður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Sakfelldur fyrir að hafa ítrekað mök við systur sína – Tilkynnti sjálfur um málið

Sakfelldur fyrir að hafa ítrekað mök við systur sína – Tilkynnti sjálfur um málið
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Trump valdi hana – Nú eru MAGA-liðar æfir út í hana

Trump valdi hana – Nú eru MAGA-liðar æfir út í hana
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Boltinn er hjá Rússum – Er líklegt að þeir samþykki vopnahlé?

Boltinn er hjá Rússum – Er líklegt að þeir samþykki vopnahlé?