The Together Project, síðasta kvikmynd fransk-íslenska leikstjórans Sólveigar Anspach, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og mun enn fremur keppa í Director‘s Fortnight (f. Quinzaine des Réalisateurs) sem fer fram samhliða kvikmyndahátíðinni í maí. Átján myndir taka þátt í keppninni sem er nú haldin í 48. skipti.
The Together Project er síðasta myndin í þríleik Sólveigar um skáldið Önnu, sem er leikin af Diddu Jónsdóttur. Fyrri myndirnar í þríleiknum eru Skrapp út (2008) og Queen of Montreuil (2012). Meðal leikara í myndinni eru auk Diddu, Samir Guesmi, Florence Loiret-Caille, Frosti Jón Runólfsson, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Kjeld. Handritið skrifaði Sólveig ásamt Jean-Luc Gaget.
Sólveig lést í ágúst í fyrra, 54 ára að aldri, en þá var myndin í eftirvinnslu. Í viðtali við kvikmyndatímaritið Variety þvertekur Edouard Waintrop, listrænn stjórnandi Director‘s Fortnight, fyrir að valið á myndinni sé einhvers konar virðingarvottur til Sólveigar, myndin sé einfaldlega ein besta franska mynd sem hann hafi séð á árinu.
Sjá einnig: Á landamærum skáldskapar og heimilda – um Sólveigu Anspach.