Framlag til sjálfstætt starfandi framleiðenda tvöfaldað – Kostnaðurinn 15,3 milljónir á dag
Stjórn Ríkisútvarpsins hefur fengið í hendur drög að nýjum þjónustusamningi við íslenska ríkið. Samningurinn hljóðar upp á ríkisframlag upp á 3.725 milljónir króna. Því til viðbótar eru tekjur RÚV á árinu og er áætlað að heildarrekstrarfé stofnunarinnar verði um 5.600 milljónir króna á þessu ári.
Helsta breytingin í nýja þjónustusamningnum er að hlutur sjálfstætt starfandi framleiðenda er tvöfaldaður. Í fyrri samningi, sem gerður var árið 2011, var hlutur sjálfstætt starfandi framleiðenda um fjögur prósent en er samkvæmt heimildum DV í þessum samningi um átta prósent af tekjum RÚV.
Sá þjónustusamningur sem nú er til yfirlestrar hjá stjórn RÚV mun gilda til ársins 2020. Með honum er lögð aukin áhersla á menningarlegt gildi RÚV og birtist það best í auknum fjármunum til sjálfstætt starfandi framleiðenda.
Þær tekjur sem RÚV hefur úr að spila jafngilda um 15,3 milljónum króna á degi hverjum.
Samkvæmt heimildum DV er gert ráð fyrir því að nýr þjónustusamningur verði undirritaður strax eftir helgi.