RÚV sýnir áhrifamikla mynd um alzheimer
RÚV sýnir í kvöld (miðvikudagskvöld) heimildamynd um alzheimer, sjúkdóm sem við óttumst mörg að fá og viljum gefa mikið til að ekki hremmi okkur, jafn skelfilegur og hann er. Páll Magnússon og Jón Gústafsson eru höfundar myndarinnar og Páll er þar í rannsóknarhlutverki, fer á vettvang og tekur viðtöl.
Þar sem sú sem þetta skrifar hefur séð myndina þá getur hún mælt með henni. Myndin er bæði fróðleg og áhrifamikil. Það er kúnst að koma upplýsingum sem snúast um heilastarfsemi og tölur til skila þannig að eftir sé tekið, en það tekst þarna með grafík sem er afar skemmtilega sett fram.
Mynd sem fjallar um alzheimer hlýtur að fjalla um manneskjur og grimm örlög. Þarna er rætt stuttlega við konu sem 48 ára gömul var greind með alzheimer. Skyndilega brestur hún í svo sáran grát að áhorfandinn finnur til. Þetta er sláandi atriði. En þarna eru líka gleðilegar stundir eins og viðtal við elsta Íslendinginn, 107 ára gamlan mann frá Stykkishólmi. Hann er ansi hress miðað við aldur og minnisgóður. Hann er einn af þeim heppnu. Enn einn viðmælandi Páls er sjónvarpskonan Sally Magnusson sem skrifaði merkilega bók um móður sína sem varð alzheimer að bráð. Viðtalið er skemmtilegt og hressandi, þrátt fyrir drungalegt efni því Sally er einstaklega lífsglöð og sjarmerandi kona. Hún hefur mikla trú á mætti tónlistar til að auka lífsgæði alzheimerssjúklinga. Í myndinni sjáum við alzheimerssjúklinga og aðstandendur þeirra syngja saman og þá er ekki annað hægt en að trúa á sameiningartöfra tónlistarinnar.
Í þættinum fer Páll Magnússon í minnispróf. Það er framkvæmt þannig að áhorfandinn er í sömu sporum og Páll og getur varla annað en tekið prófið á sjálfum sér. Þeirri sem þetta skrifar fannst sagan sem Páll átti að leggja á minnið ekki nægilega áhugaverð, saga með sprungnu afturdekki og sölumanni er ekki eitthvað sem maður nennir að leggja á minnið. Þannig fyrirgefst manni sennilega fyrir að hafa ekki náð sama árangri í prófinu og Páll. Ef þetta hefði verið rithöfundur sem hefði farið á Borgarbókasafnið til að fá lánaða innbundna skáldsögu eftir Hemingway sem ekki hefði verið til og í staðinn tekið skáldsögu eftir Camus þá hefði maður engu gleymt.
Myndin endar á umfjöllun um leit vísindamanna að lækningu við alzheimer. Í þeirri leit mega menn ekki gefa eftir. Það er dapurlegt hlutskipti að glata minningum og geta ekki fundið hugsunum sínum orð.