fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024

Föt sem birta hið ósýnilega

Fatahönnunarnornin Lauren Bowker fer fyrir efnaþróunar- og hönnunarteyminu The Unseen – Föt sem skipta um lit

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 19. mars 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirleitt hugsar fólk um hönnun sem tilraun til að gera hið sýnilega umhverfi betra, fallegra, meira straumlínulagað. En hönnun getur einnig verið notuð til að beina athygli okkar að öllu hinu ósýnilega í kringum okkur – umbreyta því sem skilningarvit mannsins nema ekki í eitthvað sjáan- og skynjanlegt.

Þetta er yfirlýst markmið Lauren Bowker sem stýrir efnaþróunar- og hönnunarhúsinu The Unseen, en hún var í hópi þeirra sem kynntu verk sín á fyrirlestrardegi HönnunarMars sem fór fram um síðustu helgi. Bowker smíðar efnasambönd sem bregðast við eiginleikum í umhverfi sínu og notar í flíkur – eða íklæðanlega skúlptúra. Vegna hinna sérstæðu efna breytast fötin eftir því hver klæðist þeim, hvar og hvenær.

Þessum töfrum líku eiginleikar flíkanna – auk hins svarta einkennisklæðnaðar hennar – hafa gert að verkum að Bowker hefur fengið viðurnefnið „fatahönnunarnornin“.

DV spjallaði við Lauren Bowker um tækniflíkur, galdra og hvort fatahönnun muni bjarga mannslífum í framtíðinni.

Efni með raunverulegan tilgang

Mig langaði að nýta sköpunargáfuna til að miðla öllu því sem ekki er hægt að miðla í gegnum tungumálið.

„Upprunalega fór ég að læra fatagerð en strax á fyrsta ári í háskólanum varð ég mjög veik og lenti inni á sjúkrahús. Ég þurfti að eyða nokkuð löngum tíma á spítalanum en það gekk illa að greina hvað nákvæmlega amaði að mér. Ég var orðin mjög pirruð yfir því að geta ekki miðlað tilfinningum mínum almennilega eða útskýrt þann líkamlega sársauka sem ég var að ganga í gegnum,“ segir Bowker þegar hún er spurð um ástæður þess að hún fór að blanda fatahönnun og efnafræði saman.

„Þegar ég fékk loksins sjúkdómsgreiningu og batnaði nógu mikið til að geta snúið mér aftur að náminu hugsaði ég að ég yrði eiginlega að einbeita mér að því að búa til efni sem hefðu einhvern raunverulegan tilgang. Mig langaði að nýta sköpunargáfuna til að miðla öllu því sem ekki er hægt að miðla í gegnum tungumálið. Það var á þeim tíma sem ég fór að prófa mig áfram í efnafræðinni. Fyrsta hugmyndin sem ég fékk var að búa til efnasamband sem myndi bregðast við óbeinum reykingum með því að mynda blett, sem gengi svo til baka. Þegar ég hafði fundið út úr þessu hugsaði ég: af hverju nota ég þetta ekki í föt?“ segir Bowker.

Jakkinn er litaður með bleki sem sýnir magn mengunar í andrúmsloftinu.
Mengunarjakki Jakkinn er litaður með bleki sem sýnir magn mengunar í andrúmsloftinu.

Sú sýn varð svo að veruleika þegar hún þróaði jakka sem var búinn til úr efnum sem námu mengun í andrúmsloftinu og breyttu um lit úr gulum í svartan eftir því sem mengunin jókst. Ég sá strax að fólk brást mun sterkar við þessum litabreytingum en ef ég sýndi því töluleg gögn sem ég hafði safnað um mengunina. Þá fann ég að ég var á réttri braut.“

Efnis-alkemisti og klæðanlegir skúlptúrar

Jakkinn sem um ræðir er litaður með blekinu PdCL2 sem bindur mengun úr andrúmsloftinu og breytir um lit eftir magninu. Þannig getur fólk gert sér grein fyrir kolefnismagninu í kringum sig. Í kjölfarið þróaði Bowker fleiri gerðir af bleki sem brást við ýmsum þáttum í umhverfi sínu með litabreytingum. Eftir nokkur ár í verkefnum fyrir ýmsa aðila, jafnt fatahönnunarhús sem flugvélaframleiðendur ákvað hún svo að safna saman í eigið teymi, The Unseen – eða Hið óséða.

„Ég kalla sjálfa mig efnis-alkemista og The Unseen er í raun efnis-rannsóknarstofa sem vinnur með efni tengt líkamanum, sem er ætlað að vera á honum eða hjá honum,“ segir hún.

„Við fáum innblástur frá öllu því ósýnilega í heiminum. Við skoðum ýmis gögn, pælum í röntgengeislum, draugum, orkusviðum, bakteríum, sjúkdómum, arkitektateikningum, frumum, mólekúlum, örverum, vindhreyfingum, rými og svo framvegis. Við viljum gera hið ósýnilega sjáanlegt og þannig viljum við öðlast einhverja nýja þekkingu á heiminum. Við mótum ákveðnar grunnhugmyndir og finnum svo þær aðstæður sem við myndum vilja að hönnunin gæti brugðist við, að lokum reynum við að smíða efnaformúlur sem bregðast við þessum aðstæðum,“ segir Bowker.

Skúlptúrarnir í AIR-línunni bregðast við mismunandi áreiti í umhverfi sínu, vindi, loftþrýstingi, hita og öðru líku með ólíkum litum.
Túlka hreyfingu loftsins Skúlptúrarnir í AIR-línunni bregðast við mismunandi áreiti í umhverfi sínu, vindi, loftþrýstingi, hita og öðru líku með ólíkum litum.

Íklæðanlegir skúlptúrar

The Unseen var stofnað árið 2014 og hefur vakið nokkra athygli í hönnunarheiminum, meðal annars fyrir AIR – eða Loft – fyrstu línuna frá fyrirtækinu sem einbeitti sér að hreyfingum lofts í kringum manneskjuna.

„The Unseen var formlega stofnað þegar við kynntum AIR-skúlptúrana. Þessir íklæðanlegu skúlptúrar voru þróaðir til að sýna nýstárlega tækni með áþreifanlegri og einstakri hönnun,“ segir Bowker.

„Í einn gripinn, Vænginn, notuðum við efnasamband sem bregst við þrýsting frá vindinum. Skuggamynd gripsins minnir á ugga sem sker í gegnum loftið og birtir þannig eðliseiginleika þessara efnasambanda. Þar sem við erum að hanna skúlptúra sem er ætlað að vera á líkamanum höfum við líka fyllt þá með efnum sem bregðast við líkamlegri virkni þess sem klæðist flíkinni. Viðbrögð tveggja einstaklinga er aldrei eins – þar sem engar tvær manneskjur eru eins. Ég get til dæmis nefnt trefilinn í AIR-línunni, en í hann notum við fimm ólík efnasambönd sem bregðast við ýmsum áhrifum frá hálsinum og höfðinu. Hann fær dýpri lit þegar hann er í kringum andlitið en þegar hann er á líkamanum,“ segir hún en nefnir líka bakpoka sem bregst við áhrifum vinds, sólar, skugga og hitastigs, og smáhluti á borð við veski og farsímahulstur, en litur þeirra og mynstur mótast af snertingu eigandans og því hvernig hann notar hlutinn.

Tækni og galdrar

Flíkurnar eru ofurframtíðarlegar og tæknilegar en á sama tíma sækir hún fagurfræðilegan innblástur í hefð norna og galdraathafna. Þetta segist Bowker ekki álíta að sé mótsögn.

„Ég trúi því að tækni SÉ galdur. Ég fæ innblástur frá öllu og hverju því sem manneskjurnar geta ekki séð, heyrt, bragðað eða snert. Þegar við erum börn trúum við á ósýnilega heima í kringum okkur en þegar við fullorðnumst erum við mun lokaðri gagnvart umhverfi okkar. Ég hef sýnt áhorfendum á öllum aldri, allt frá fimm ára gömlum til áttatíu og fimm ára, fjaðrir sem breyta um lit og viðbrögðin eru alltaf þau sömu – allir er hugfangnir þegar litbrigðin breytast og þessi „dauða“ fjöður fyllist lífi. Eðli þessa „lífs“ virðist óútskýranlegt og göldrótt. Á þennan hátt viljum við hrífa fólk og veita því innblástur með þróun slíkra snjallefna sem munu breyta lífi fólks í framtíðinni,“ segir Bowker.

Ég álít að í raun séu litir og áþreifanlegt yfirborð tungumál sem allir geti skilið, og hægt er að nota til að túlka ýmsar upplýsingar.

„Ég álít að í raun séu litir og áþreifanlegt yfirborð tungumál sem allir geti skilið, og hægt sé að nota til að túlka ýmsar upplýsingar. Ef ég segi þér að kolvetnisútblástur og mengun sé allt í kringum þig og sýni þér töluleg gögn um málið getur vel verið að þú hlustir, en ég held að það hafi óhjákvæmilega áhrif á þig ef þú klæðist jakka sem sýnir þér nákvæmlega magnið af mengandi efnum umhverfis líkamann með litabreytingum. Við erum umkringd endalausu magni af ósýnilegum upplýsingum í hversdagslífi okkar, en kenningin sem við vinnum eftir hjá The Unseen er að það sé hægt að gera þessar upplýsingar aðgengilegar og nota þær til að bæta líf okkar á einhvern hátt.“

Í samvinnu við skartgripafyrirtækið Swarovski þróaði The Unseen höfuðbúnað með eðalsteinum sem bregðast við heilastarfsemi þess klæðist honum. Steinarnir breyta um lit og gera breytingar í virkni heilans sýnilega. Það er ljóst að slíkar vörur verða seint taldar til neysluvöru fyrir almenning og segir Bowker það ekki vera markmið The Unseen. „Markmið okkar er að búa til stórkostlegar flíkur sem verða erfðagripir og erfast frá kynslóð til kynslóðar.“

Eðalsteinarnir í höfuðfati sem The Unseen þróuðu í samstarfi við Swarowski bregðast við ólíkri virkni heilans með mismunandi litum.
Tjá virkni heilans Eðalsteinarnir í höfuðfati sem The Unseen þróuðu í samstarfi við Swarowski bregðast við ólíkri virkni heilans með mismunandi litum.

Telur að „snjallflíkum“ muni fjölga

Þetta tvíhliða samband líkamans og flíkurinnar sem þið eruð að vinna með kallast svolítið á við það sem er að gerast á sviði íklæðanlegrar tækni (e. Wearable Technology) á borð við Google-gleraugun, snjallúr sem mæla ýmsa líkamlega virkni og Thync-höfuðbúnaðinn sem gefur notandanum léttan rafstraum og er ætlað að hafa áhrif á virkni heilans. Hvaða augum lítur þú þessa þróun?

„Við lítum ekki á það sem við gerum sem íklæðanlega tækni – þó að ég telji reyndar að þróun á slíkum „snjallflíkum“ muni aukast umtalsvert á næstunni. Ég vona bara þær verði örlítið ósýnilegri og ögn gagnlegri en þær eru í dag. Ég vona líka að þegar tískubransinn stökkvi á þennan vagn muni það leiða til þess að ýmsir hlutir sem eru notaðir í flíkurnar verði smám saman ódýrari og leiði að lokum til framfara, til dæmis í heilsugæslu. Þegar kemur að fötum og tækni er hin fullkomna framtíð í mínum huga ekkert öðruvísi en heimurinn er í dag. Ég er alveg sátt við að einhver tæki verði sett í flíkurnar mínar svo lengi sem þau séu ekki áberandi og geri flíkurnar betri, skilvirkari eða bjargi jafnvel lífi mínu,“ segir Bowker.

Hvað er annars framundan hjá The Unseen. Hvað eruð þið að þróa þessa dagana?

„Þessa dagana erum við að færa okkur af AIR-tímabilinu og stefnum á WATER. Ég get því miður ekkert gefið upp um þetta, þar sem við erum á fullu í rannsóknar- og þróunarvinnu, en ég get sagt að efnin sem við erum að skapa eru mjög ólík því sem við höfum verið að vinna með í AIR-línunni. En við hlökkum til að sýna þessa línu, seinna á árinu,“ segir Bowker.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

„Þetta var kalt, sérstaklega með vindinn og rigninguna í smettið“

„Þetta var kalt, sérstaklega með vindinn og rigninguna í smettið“
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Hvatvís og flytja til Rómar – Hætt við sölu en vilja leigja og „ganga svo að henni vísri þegar heim er komið, bæði tönuð í drasl“

Hvatvís og flytja til Rómar – Hætt við sölu en vilja leigja og „ganga svo að henni vísri þegar heim er komið, bæði tönuð í drasl“
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Gáði ekki að sér og sigldi á hafnarkantinn

Gáði ekki að sér og sigldi á hafnarkantinn
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Nauðgunar mál Mbappe ekki lengur á borði saksóknara

Nauðgunar mál Mbappe ekki lengur á borði saksóknara