Teiknimyndin Zootopia var frumsýnd í kvikmyndahúsum í Banadaríkjunum um helgina og er óhætt að segja að myndin hafi farið vel af stað. Zootopia halaði inn 73,7 milljónir Bandaríkjadala og sló þar með met sem Frozen setti árið 2013, en tekjur af henni fyrstu sýningarhelgina námu 67,4 milljónum dala.
Zootopia segir frá skrautlegum og litríkum dýrum í óþekktri stórborg. Segir myndin frá kanínunni Judy Hopps sem er nýbyrjuð í lögregluliði borgarinnar. Hún kynnist brögðóttum ref, Nick Wilde, og þegar dularfullir atburðir fara að gerast þurfa þau að vinna saman að úrlausn mála. Myndin hefur hlotið góða dóma hjá gagnrýnendum, en um er að ræða 55. Disney-myndina í fullri lengd.
Af þeim myndum sem frumsýndar hafa verið í marsmánuði, er myndin sú fjórða aðsóknarmesta í sögunni. Útlit er fyrir að velgengnin muni halda áfram enda verða tiltölulega fáar stórmyndir frumsýndar á næstu vikum.