Í rúm sjötíu ár frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur virst ómögulegt að tala um illsku nema með því að vísa til baka til stríðshörmunganna. En eftir því sem að nasismi, Hitler og útrýmingarbúðir hafa smám saman orðið að tómum táknum sem allir geta gripið til að berja á andstæðingum sínum hafa sjónarmið útilokunar og afmennskunar aftur orðið áberandi og jafnvel ráðandi í umræðu vestrænna stjórnmála.
Ungverska Óskarsverðlaunamyndin Sonur Sáls (u. Saul Fia), frumraun leikstjórans László Nemes, virðist í fyrstu vera enn ein útjöskuð og tilgangslaus helfararklisjan, en reynist ekki aðeins margslungin og mikilvæg saga heldur sögð á nýstárlegan og frumlegan hátt sem styður fullkomlega við frásögnina.
Við erum stödd í Auschwitz í október 1944. Það er verið að myrða fólk á verksmiðjuskala. Hópar gyðinga, svokallaðir Sonderkommandos, fresta eigin dauða með því að vinna baki brotnu við framkvæmdina. Þeir smala fólki inn í gasklefana, þrífa ummerkin og henda eigum fórnarlambanna, ferja „stykkin“ í líkbrennsluofna og moka öskunni út í vatn – allt í kapp við klukkuna og undir öskrandi harðri hendi yfirmanna skör ofar í dauðakeðjunni.
Í miðju þessarar þaulskipulögðu geðveiki lifir einn ungur drengur af eiturgufurnar með herkjum, en er umsvifalaust handkæfður og tekinn inn á læknastofuna þar sem hann skal notaður til krufningar. Einn gyðinganna sem starfa í búðunum, Ungverjinn Sál, fylgist agndofa með: „þetta er sonur minn!“ hugsar hann. Í kjölfarið hefst mikið laumuspil og barátta fyrir því að bjarga líkinu og veita drengnum sómasamlega gyðinglega greftrun. Þetta er nánast ómögulegt verkefni á stað þar sem mannslíf er einskis virði og jarðneskar leifar enn verðlausari.
Það flækir málið svo enn frekar að undirbúningur uppreisnar er í fullum gangi. Lítill hópur Sonderkommandos ætlar að sýna umheiminum óhugnaðinn með ljósmyndavél sem var smyglað inn í búðirnar, þá hafa þeir orðið sér úti um sprengiefni og skal það notað til að stöðva tannhjól morðverksmiðjunnar. Öllu þessu stefnir Sál í hættu með tilraun sinni til þess að greftra drenginn.
Fókus myndarinnar er, mjög bókstaflega, á þennan eina ungverska gyðing Saul Ausländer. Myndavélin snýr alltaf og aðeins að aðalpersónunni.
Fókus myndarinnar er, mjög bókstaflega, á þennan eina ungverska gyðing, Saul Ausländer. Myndavélin snýr alltaf og aðeins að aðalpersónunni. Þröngur ramminn fangar hvert einasta augnaráð og svipbrigði hans (eða öllu heldur svipbrigðaleysi) en aðrar persónur birtast og hverfa, og útrýmingarbúðirnar sjálfar eru aðeins í baksýn – martraðakennt leiksvið.
Kvikmyndatakan kveikir þá tilfinningu að hér geti hver maður aðeins reynt að bjarga sjálfum sér. Það er ómögulegt að mynda langvarandi tilfinningasambönd í þessum óeðlilegu, ógnvænlegu og ómanneskjulegu aðstæðum þar sem einstaklingurinn er fullkomlega afmennskaður, þar sem líkami mannveru er aðeins stykki sem þarf að ferja frá A til B.
Sál birtist okkur eins og lifandi dauður, svipbrigðalaus í eigin heimi. Við höfum enga yfirsýn heldur fylgjumst með honum færast um völundarhús búðanna, ákvarðanir hans eru okkur illskiljanlegar. Þessi rörsýn gerir það að verkum að maður verður ringlaður og þarf að sleppa voninni um yfirsýn eða heildarmynd. Sjálfur skilur Sál lítið í umhverfi sínu, talar ekki þýsku né jiddísku sem eru ríkjandi tungumál í búðunum. Hljóðheimurinn ýtir undir ringulreiðina í huganum: nánast engin tónlist, bara stöðugar skipanir, óðagot og hljóð úr vítisvélinni: skrímslinu Auschwitz.
Myndin flýr langt frá Hollywood-legri tvíhyggju góðs og ills. Fangaverðir úr röðum nasista birtast varla nema sem ógnandi raddir og byssukúlur. Það eru gyðingar sem skipa gyðingum að drepa gyðinga. Yfirmenn, undirmenn, viðföng – en öll þolendur. Hin óskiljanlega illska felst fyrst og fremst í strúktúrnum sem hefur verið skapaður, byggingum sem hafa verið hannaðar og vinnuskipulagi sem hefur verið mótað til þess að svipta hóp fólks mennskunni og slátra því. Innan slíks kerfis er erfitt að skilgreina gott og illt.
Þrátt fyrir að búðirnar séu skipulagðar í þéttu neti valdboðs og ofbeldis sem virðist ómögulegt að berjast gegn eru alltaf gloppur í taki valdsins. Verðmæti sem er stolið úr klæðum hinna myrtu gengur sölum og kaupum. Þessi verðmæti er hægt að nýta til að beygja reglurnar – og að lokum til að gera uppreisn.
Sál stendur á vissan hátt í vegi fyrir uppreisninni með þrjósku sinni til að grafa drenginn og finna rabbína sem getur sungið yfir honum. Sá sem horfir á söguþráðinn abstrakt og með yfirsýn sögunnar getur sagt þetta vera óskynsamlegt. „Þú fórnar þeim lifandi fyrir þá dauðu,“ segir vinur Sáls, sem efast í þokkabót um að drengurinn sé raunverulega sonur hans – og sáir þannig efasemdafræi í huga áhorfandans. Er Sál ekki bara búinn að missa vitið?
En hvort sem blóðtengslin eru blekking eða sönn finnur Sál sinn persónulega tilgang og trú í drengnum, eina haldreipið í miðri óskiljanlegri geðveiki. Drengurinn drepst ekki í andlitslausum fjöldanum heldur verður einstaklingseðli hans ljóst þegar hann kemur lifandi úr klefanum. Sál gerir sér grein fyrir að mennsku þessa drengs sé ekki hægt að hunsa. Greftrunin verður þannig tákn um mennskuna, því er maðurinn ekki eina lífveran sem greftrar hina látnu og er greftrunin ekki endanlegt tákn um að hver mannvera sé einstök og óútskiptanleg?
„Þú fórnar þeim lifandi fyrir þá dauðu,“ segir vinur Sáls, sem efast í þokkabót um að drengurinn sé raunverulega sonur hans.
Myndin talar sterkt inn í ungverskt samhengi, jafnt sögulega sem og í dag. Yfirvöld hafa illa tekist á við samsekt sína í fjöldamorðum seinni heimsstyrjaldarinnar, en þau sendu 400 þúsund Ungverja til Auschwitz. Búðirnar eru því stærsti grafreitur þjóðarinnar.
Og hin óuppgerða saga verður vafalaust aftur vígvöllur, því að stöðugt eykst fylgi þjóðernissinnanna í Jobbik, og forsætisráðherrann Victor Orban beitir fyrir sig útlendingaótta og -andúð til að réttlæta sífellt grófari einræðistilburði.
Enn á ný rís upp andúð og ótti við utanaðkomandi í landinu, andúð og ótti sem leiðir óhjákvæmilega til smættunar og afmennskunar á stórum hópi fólks. Nú eru það ekki aðeins gyðingar heldur flóttamenn og innflytjendur – það er varla tilviljun að eftirnafn Sáls er Ausländer, eða Útlendingur.