Nöldrarar heimsins sofna aldrei á verðinum
Þúsundþjalasmiðurinn Stephen Fry virðist geta allt og kunna allt, allavega gerir hann allt vel sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann virðist aldrei vera iðjulaus og við sjáum honum stöðugt bregða fyrir í alls kyns sjónvarpsþáttum við margvíslega iðju. Fry virðist ekki hafa glatað forvitni sinni gagnvart lífinu, er síleitandi og spyrjandi. Það er öfundsverður eiginleiki.
Um daginn komst Fry í fréttir vegna brandara sem hann sagði á BAFTA-hátíðinni. Veitt voru verðlaun fyrir bestu búninga í kvikmynd og búningahönnuðurinn kom upp á svið til að taka við verðlaununum. Sú hæfileikaríka kona var ekki vel klædd miðað við það sem tíðkast á hátíð eins og þessari. Fry sagði: „Enginn nema einn besti búningahönnuður heims kæmi á hátíð eins og þessa klæddur eins og útigangskona.“ Þetta var vissulega ósvífinn brandari. Mörgum fannst hann fyndinn. Öðrum fannst það alls ekki. Brandarar hitta misvel í mark. Slíkt er eðli brandara.
Eftir þennan brandara hófust umræður á netinu hjá fólki sem hefur upp sitt reglubundna væl í hvert sinn sem því mislíkar eitthvað. Þetta er nokkuð stór hópur og honum mislíkar stöðugt. Reyndar má segja að þarna sé á ferð fólk sem leiti uppi hluti sem því geti mislíkað. Þessu fólki líður best þegar það getur nöldrað og tuðað og skammast. Það virðist helst ekki vilja líta glaðan dag. Það er eins og það vakni pirrað, fari reitt að sofa og sé önugt öllum stundum þess á milli.
Snillingurinn Fry virðist ekki gefinn fyrir pólitíska rétthugsun þeirra sem telja sig geta ákveðið hvað sé viðeigandi og hvað ekki þegar brandari er sagður. Húrra fyrir Stephen Fry! Hann sagði þrasið vegna brandara síns vera þreytandi og hætti á Twitter, en þar eru menn víst stöðugt nöldrandi. Nöldrarar heimsins sofna aldrei á verðinum.
Nú þegar meistari Fry er hættur á Twitter hefur hann enn meiri tíma til að sinna merkilegum verkefnum sem hann er stöðugt að vinna að. Megi allar góðar vættir fylgja þessum mikla hæfileikamanni.