Ragnar Kjartansson, Carolee Schneemann, Chris Burden og fleiri í Nánum rafrænum kynnum
Í kvöld hefst Næturvarpið, tveggja vikna sýning á myndbandsverkum eftir alþjóðlega listamenn af ólíkum kynslóðum, á RÚV. 38 listamenn eiga verk á sýningunni sem nefnist Náin rafræn kynni og stendur yfir í fjórtán nætur, eða til 22. febrúar. Sýningarstjóri er Margot Norton, sem starfar sem sýningarstjóri hjá New Museum í New York, en meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni eru Chris Burden, Camille Henrot, Carolee Schnemann og Ragnar Kjartansson.
Í tilkynningu frá skipuleggjundum sýningarinnar segir: „Myndbandsverkin sem valin hafa verið til sýningar eru eftir alþjóðlega listamenn af ólíkum kynslóðum og sýna fjölbreyttar nálganir við að kanna það nána líkamlega samband sem er til staðar milli sjónvarpsútsendingarinnar og áhorfandans. Verkin koma áhorfendum í návígi við myndir á skjánum og ýtt er undir áhrifin með því að sýna verkin í sjónvörpum landsmanna sem geta notið verkanna í eigin umhverfi í kyrrð næturinnar. Sjónvarpsskjárinn, sem er sjálfsagður hlutur í heimilisumhverfi nútímans, getur líkst því að hafa annan líkama í herberginu – hann hefur áhrif á skilningarvit okkar með myndum og hljóðum og tekst ögrandi á við fjarstæðukenndar hliðar merkingar. Með tilkomu snjallsíma, spjaldtölva og annars fartölvubúnaðar, og þeirri frelsun skjásins út í umhverfi okkar sem þeim fylgdi, hefur sambandið milli mynda sem sendar eru í gegnum þessi persónulegu tæki og okkar eigin líkama orðið enn beinna.“