Brie Larson var valin besta leikkonan – Sylvester Stallone valinn besti leikarinn í aukahlutverki
Golden Globe verðlaunahátíðin, eða Gullhnötturinn, fór fram í Bandaríkjunum í nótt. Þar var kvikmyndin The Revenant, með þeim Leonardo DiCaprio og Tom Hardy, sigursælust og fékk þrjú eftirsóttustu verðlaunin.
The Revenant var valin besta dramakvikmyndin og var leikstjóri myndarinnar, Alejandro G Inarritu, valinn besti leikstjórinn. Þá hlaut DiCaprio verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki í flokki dramakvikmynda.
Þetta var í þriðja sinn sem DiCaprio hlýtur gullhnöttinn. Verðlaunin þykja gefa góðar vísbendingar um hverjir hljóti Óskarinn og þykir DiCaprio afar líklegur til að fá styttuna eftirsóttu í ár. DiCaprio hefur fjórum sinnum verið tilnefndur, þar af þrisvar sem besti leikari í aðalhlutverki, en aldrei sigrað.
Kvikmyndin The Martian, með Matt Damon í aðalhlutverki, hlaut tvö verðlaun í flokknum gamanmyndir og söngmyndir.
Brie Larson var valin besta leikkonan í flokknum dramakvikmyndir, fyrir hlutverk sitt í Room, og Jennifer Lawrence var valin besta leikkonan í flokki gamanmynda.
Óvæntustu úrslit kvöldsins voru ef til vill þau að Sylvester Stallone var valinn besti leikarinn í aukahlutverki. Verðlaunin fékk Stallone fyrir að leika hnefaleikagoðsögnina Rocky Balboa í kvikmyndinni Creed.